149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

fullgilding samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

773. mál
[17:09]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi orð og fyrir að gera grein fyrir þessari þingsályktunartillögu sem er ákaflega mikilvæg, að þessi samningur verði fullgiltur með henni.

Ég vil vekja athygli á forsögunni að þessu, á vissan hátt. Við þekkjum það jú að fimm strandríki á norðurslóðum byrjuðu á því að hafa sérstakt samráð um t.d. þessar fiskveiðar, eða við skulum segja um málefni Norður-Íshafsins, í Illulisat á Grænlandi 2008. Það sneri m.a. að því hvernig stjórna skuli hafsvæði Norður-Íshafsins. Og eins varðandi fiskveiðar og rannsóknarsamstarf úthafanna og fleira.

Ísland mótmælti þessu. Það sýnir einmitt styrk þessa samstarfs á norðurslóðum, þrátt fyrir allt, að þau mótmæli og fleiri umræður sem fylgdu urðu til þess að bandarísk stjórnvöld höfðu frumkvæði að því að bjóða til fundar um úthafsveiðarnar og rannsóknasamstarf á Norður-Íshafinu strax 2015. Síðan gekk nokkuð vel að vinna að gerð þessa samnings, sem á að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar á miðhluta Norður-Íshafsins. Það var lokið við hann 2018.

Það er mjög mikilvægt að það komi fram að þarna stóðust þjóðirnar ákveðið próf í því mikilvæga samstarfi sem þarf að vera hér á norðurslóðum.

Það er von mín og fleiri, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða aðrir, að fleiri samningar en þessi sjái dagsins ljós. Við höfum t.d. séð einn um leit og björgun. Það mætti nefna samninga um að hætta að nota þungolíu, eða svartolíu, á norðurslóðum, koma í veg fyrir sótmengun, sem flýtir fyrir bráðnun íss og snævar. Ýmiss konar aðrar mengunarvarnir mætti nefna.

Svo eru erfið mál sem auðvitað þarf að á endanum að gera samninga um líka, eins og um stjórn þessa hafsvæðis utan 200 mílna lögsögu strandríkjanna fimm sem mynda hringinn í kringum norðurskautssvæðið sjálft, eða Norðurpólssvæðið sjálft.

Það mætti líka nefna vinnslu gass og olíu eða annarra auðlinda á þessum slóðum. Þetta eru viðkvæm mál sem er dálítið langt í land að náist samkomulag um. Og ég tala nú ekki um uppbyggingu hernaðarmannvirkja og annars slíks á þessum slóðum.

En hvað um það. Þessi samningur og aðrir gefa ákveðna von um að þessar þjóðir nái saman um að tryggja bæði friðsamlega sambúð og sem best lífskjör þeirra fjögurra milljóna manna sem byggja þetta risastóra svæði.

Þannig að ég vil bara nota tækifærið og fagna þessari þingsályktunartillögu og hvet til þess að það verði mikill einhugur í þinginu um að veita henni brautargengi.