149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

fullgilding samnings um að koma í veg fyrir stjórnlausar úthafsveiðar í miðhluta Norður-Íshafsins.

773. mál
[17:13]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil nota tækifærið og þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir ræðu hans. Ég get tekið undir allt sem þar kom fram. Af augljósum ástæðum skiptir öllu máli að sú nýting sem verður á þessu svæði, sem og umferð og umfang, verði þannig að það svæði verði áfram eins og það hefur verið fram til þessa, þ.e. friðsamt og laust við spennu. Til þess að svo megi verða þurfum við að huga að málum sem hv. þingmaður vísaði til.

Hv. þingmaður nefndi hér leit og björgun, mengunarmálin, sömuleiðis vinnslu, náttúruauðlindir eða annað en hér um ræðir. Hv. þingmaður nefndi einnig gas og olíu, en jafnframt mætti nefna dýrmæta málma sem þarna eru. Við munum gera það sem við getum til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar, hvort sem það er í Norðurskautsráðinu eða annars staðar, og leggja á það áherslu að þarna muni gilda alþjóðalög og tryggja gagnvart þeim þjóðum sem bæði eru við norðurskautið og aðrar þjóðir sem hafa hug á því og munu eiga umferð og umsvif á þessu svæði, að allt saman verði gert eftir alþjóðasamningum og eftir alþjóðalögum.

Þarna eru fyrst og fremst undir hagsmunir heimsins og svo sannarlega okkar Íslendinga líka. Markmiðið og upplegg okkar hlýtur að vera sjálfbærni, og ég er ánægður að heyra innlegg hv. þingmanns hvað það varðar, ég veit að við erum algjörlega sammála um það og ég er sammála hv. þingmanni í því, að kalla eftir samstöðu þingsins hvað það varðar. Það er þá ekki bara sjálfbærni sem snýr að náttúrunni og umhverfinu, heldur sömuleiðis efnahagsleg og félagsleg sjálfbærni. Og auðvitað verðum við alltaf að hafa það í huga að kringum norðurskautið búa um fjórar milljónir manna. Þeir einstaklingar sem þar búa verða að fá að koma að þeim ákvörðunum sem teknar verða og njóta tækifæra eins og aðrir jarðarbúar.