149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

frysting fjármuna og skráning aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.

774. mál
[17:23]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir hans framsögu. Almennt má segja að þetta frumvarp sé af hinu góða. Það er mikilvægt að það séu til heimildir til að taka eignir sem á að nota til fjármögnunar hryðjuverka og þess háttar verknaða. Það er að sjálfsögðu jákvætt að frumvarpið sem slíkt byggir á áliti, eða úttekt, alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins á Íslandi, sem á ensku heitir, með leyfi forseta, „Financial Action Tax Force“, eins og hefur komið hér fram.

Það eru einkum tvö atriði sem ég vil staldra við í frumvarpinu. Í 4. gr. er kveðið á um skyldu til að frysta fjármuni og efnahagslegan auð. Ég skil vel að þetta sé sett fram á grundvelli alþjóðlega fjármálaaðgerðahópsins, en mér finnst greinargerðin alls ekki skýr. Það er nú þannig að lög og greinargerðir með lögum verða að vera skýr.

Ég vil nefna dæmi. Hér segir í greinargerðinni um 4. gr.:

„Síðari hluti málsgreinarinnar er í samræmi við tilmæli 6.5 (c) um að ríki skuli banna ríkisborgurum sínum, eða öðrum einstaklingum eða lögaðilum innan lögsögu þeirra, að gera fé eða aðrar eignir, efnahagslegan auð eða fjármálaþjónustu, eða aðra tengda þjónustu, aðgengilega, beint eða óbeint, að öllu leyti eða að hluta, til hagsbóta fyrir tilnefnda einstaklinga eða lögaðila; lögaðila í eigu eða undir stjórn, beint eða óbeint, tilnefndra einstaklinga eða lögaðila; og einstaklinga eða aðila í fyrirsvari fyrir, eða fyrir hönd á annan hátt, tilnefnda einstaklinga eða lögaðila, nema viðkomandi sé leyfisveitandi, viðurkenndur eða á annan hátt tilkynntur samkvæmt viðeigandi ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.“

Það væri fróðlegt að heyra það frá hæstv. ráðherra hvort hann telji þetta vera skýrt.