149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

frysting fjármuna og skráning aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.

774. mál
[17:31]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna. Ég held að við séum flest alveg sammála um markmiðin sem hér er talað fyrir sem snúast um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna. En ég verð að segja, eins og fram hefur komið í andsvörum, að þetta frumvarp er pínulítið torf að lesa í gegnum.

Mig langar því að vita hvort hæstv. ráðherra geti aðeins varpað ljósi á og hjálpað mér að skilja það sem er fjallað um í 9. gr., sem fjallar um tilnefningu á lista öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna yfir þvingunaraðgerðir. Þar er í c-lið talað um upplýsingar um aðferðir og fjármuni sem notaðir hafa verið við fjármögnun hryðjuverka eða útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna. Síðar í 9. gr. koma aftur stafliðir sem eru merktir a, b og c o.s.frv. og þar er í a-lið á bls. 5, talandi um torf, aftur fjallað um útbreiðslu og fjármögnun gereyðingarvopna. Ég finn ekkert um þetta í því sem fjallað er um í 9. gr. Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti varpað einhverju ljósi á það. Í hvaða samhengi erum við að tala um þetta hérna? Erum við að tala um fjármögnun á gereyðingarvopnum almennt, sem er mjög mikilvægt markmið eitt og sér, eða er þetta í einhvers konar þrengra samhengi sem snýst þá um að gereyðingarvopn komist ekki í hendur tiltekinna hópa? Það er líka mjög mikilvægt atriði en það (Forseti hringir.) skiptir samt máli í heildarsamhengi hlutanna hvað er í raun verið að fjalla um hérna.