149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

frysting fjármuna og skráning aðila á lista yfir þvingunaraðgerðir í tengslum við fjármögnun hryðjuverka og útbreiðslu gereyðingarvopna.

774. mál
[17:36]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Ég er hjartanlega sammála því að auðvitað eru ýmiss konar vopn sem falla undir gereyðingarvopn og sem betur fer þá hafa mörg þeirra hreinlega verið bönnuð með alþjóðasáttmálum. En það eru hins vegar ekki öll gereyðingarvopn bönnuð og þar á meðal eru kjarnorkuvopn. Það er alltaf ákveðin hætta á því að mínu mati að í málum eins og þessum, sem eru í eðli sínu góð og mikilvæg, sé svolítið farið í kringum kjarna málsins, sem er sá að sum ríki þessa heims búa yfir gjöreyðingarvopnum sem eru enn þá því miður talin lögleg. Orðalagið hér er notað til að komast fram hjá þeirri staðreynd.

Ég geri mér grein fyrir því að þetta er ekki málið sem hægt er að nota til þess að banna kjarnorkuvopn. En mér finnst engu að síður mjög mikilvægt að þegar við fjöllum um mál eins og þetta frumvarp til laga þá gerum við okkur grein fyrir því að það er bara verið að segja lítinn hluta af sögunni. Það er aðeins náð utan um lítinn hluta af vandamálinu. Í mínum huga snýst þetta að hluta til um svolítinn pólitískan hvítþvott þeirra ríkja sem eru aðilar að Sameinuðu þjóðunum, sem búa yfir þessum öflugu gereyðingarvopnum.

Að því sögðu þá fagna ég auðvitað öllum skrefum sem stigin eru til þess að koma böndum á gereyðingarvopn (Forseti hringir.) og að þau geti ekki verið í höndum neinna.