149. löggjafarþing — 96. fundur,  29. apr. 2019.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar 2019--2022.

771. mál
[17:55]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (andsvar):

Forseti. Mig langar til að byrja á því að fagna þessari aðgerðaáætlun. Mér sýnist að ráðherra ætli að standa undir nafni sem barnamálaráðherra, sem er mjög gott. Þetta er flott aðgerðaáætlun.

Mig langar samt til að spyrja, ég var hér í apríl 2017 þegar lögð var fram aðgerðaáætlun. Hún var bara til eins árs og þá ræddi ég við þáverandi ráðherra í málaflokknum um hvers vegna verið væri að fara á svig við lög, af því að samkvæmt barnaverndarlögum á að samþykkja svona áætlun til fjögurra ára. Á þeim tíma hafði það verið gert árið áður, þá hafi einnig verið gerð áætlun til eins árs. En þetta er áætlun til þriggja ára.

Þegar við tókum málið fyrir á fundi velferðarnefndar á sínum tíma í maí 2017 komu fram þær upplýsingar að hefja ætti vinnu strax það haust við nýja og viðameiri áætlun sem hægt væri að samþykkja strax eftir sveitarstjórnarkosningar haustið eftir. Ég velti fyrir mér: Hvað varð um þá vinnu? Hvers vegna var ekki hægt að leggja þetta fram fyrr? Mér þykir alltaf jafn undarlegt að það sé svona auðvelt hreinlega að fara ekki að lögum. Ég skil ekki alveg þessa pælingu. Ef samþykkja á áætlun til fjögurra ára samkvæmt barnaverndarlögum, hvers vegna er þá ekki farið eftir þeim lögum?