149. löggjafarþing — 97. fundur,  30. apr. 2019.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á morgun er 1. maí, baráttudagur verkalýðsins. Á þeim degi munu öryrkjar fara sína þrautargöngu niður Laugaveginn að Ingólfstorgi til að mótmæla því að þeir eru alltaf neðstir í goggunarröðinni eða bara ekki yfir höfuð í henni og mega éta það sem úti frýs í boði núverandi og fyrrverandi ríkisstjórna.

Hæstv. forsætisráðherra sagði í gær í óundirbúnum fyrirspurnatíma að öryrkjar og eldri borgarar fengju ekki krónuhækkun 1. apríl eins og aðrir fá í lífskjarasamningum. Nei, ekki krónuhækkun því að það væri ekki í fjárlögum þessa árs. Þá væri óvíst hvaða hækkanir þeir fengju um næstu áramót því að það færi eftir ýmsu, eða eins og hæstv. forsætisráðherra sagði orðrétt:

„Í fyrsta lagi er tekin ákvörðun um vísitöluhækkun örorkulauna í fjárlögum hvers árs og þar hefur stundum verið miðað við neysluvísitölu. Stundum hefur verið miðað við neysluvísitölu plús einhver önnur viðmið, þannig að það er ekki alveg einhlítt hvernig sú ákvörðun hefur verið tekin.“

Hvernig væri að fara að lögum? Í 69. gr. almannatryggingalaga segir, og það er alveg skýrt, að miða skuli við launaþróun, en vísitölu ef hún er betri, hagstæðari. Króna á móti krónu skerðingin kemur þessum launahækkunum ekkert við og það furðulegasta er að ríkisstjórnin hefur legið eins og ormur á gulli á 2,9 milljörðum sem eru eyrnamerktir öryrkjum og það kemur ekkert til framkvæmdar.

Legið er á þessu fé eins og ormur á gulli. Einelti, fjárhagslegt einelti, svelti heldur áfram og á að halda áfram. Það á ekkert að gera. Um næstu áramót á að fara í sömu brellur og alltaf. Það á ekki að borga öryrkjunum afturvirkt eins og í tilfelli allra annarra. Nei, það á að beita brellum. Eins og forsætisráðherra segir verður farið nákvæmlega eins að og alltaf hefur verið gert; þegar öryrkjar eiga að fá 3% eða meiri hækkun, 6% eins og síðast — hvernig var þá brellan? Jú, með ótrúlegum reiknikúnstum var hægt er að ná því niður um helming. Það verður gert aftur.