149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

fjárframlög til SÁÁ.

[10:51]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir svarið. Hvernig ég greiddi atkvæði með þessu frumvarpi eða þessum breytingartillögum og aukafjárveitingu í haust — ég er búin að rökstyðja að það var eingöngu vegna þess að mér þótti þetta vera röng forgangsröðun. Mér þótti meira virði að koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll. Mér þótti forgangsröðunin mun öflugri ef reynt yrði að fækka á 600 manna biðlista, af fólki sem var á allt of háum þröskuldi að biðja um hjálp á sjúkrahúsi. Það vantar hér fagaðstoð umfram það sem við sjáum hjá SÁÁ þannig að ég segi: Á meðan þetta ófremdarástand ríkir að þessu leyti í kerfinu mun ég halda áfram að spjalla við hæstv. heilbrigðisráðherra um þessi mál og kannski, ef löggjöfin er það broguð að ekki er hægt að fá fram vilja Alþingis skilyrðislausan, er tímabært að hæstv. heilbrigðisráðherra líti til þess að breyta löggjöfinni í þá átt að það sé yfir allan vafa hafið hvað löggjafinn vill þegar við köllum eftir því að setja ákveðið aukið framlag í ákveðna nauðsynlega málaflokka til hagsbóta fyrir fólkið í landinu.