149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 64/2018 um breytingu á IX. viðauka við EES-samninginn.

657. mál
[11:23]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 64/2018, sem er einnig breyting á viðauka um fjármálaþjónustu.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á fund til sín fólk frá utanríkisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneytinu, en með þessari þingsályktun er lagt til að fella inn í samninginn fjórar gerðir. Í fyrsta lagi reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 345/2013, frá 17. apríl 2013, um evrópska áhættufjármagnssjóði. Í öðru lagi eru það reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 346/2013, um félagslega framtakssjóði. Í þriðja lagi er það framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar, nr. 593/2014, frá 3. júní 2014, um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga skv. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 345/2013, um evrópska áhættufjármagnssjóði. Og í fjórða lagi er það framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar, nr. 594/2014, frá 3. júní 2014, um tæknilega framkvæmdarstaðla að því er varðar form tilkynninga skv. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins, nr. 346/2013, um evrópska félagslega framtakssjóði.

Líkt í öðrum málum er sex mánaða frestur samkvæmt EES-samningnum til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara en hann var veittur í þessu máli til 24. september 2019 og framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð slíkra mála.

Með reglugerðum nr. 345/2013 og 346/2013 er komið á samræmdu regluverki um evrópska félagslega framtakssjóði og áhættufjármagnssjóði, en markmiðið er að stuðla að vexti og nýsköpun lítilla og meðalstórra fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Er markmið reglugerðarinnar nr. 346 að auðvelda fjárfestum sem vilja fjárfesta í fyrirtækjum með félagsleg markmið að finna og velja evrópska félagslega framtakssjóði, en reglugerðir 593/2014 og 594/2014 kveða á um nánari útfærslu á reglugerðum 345/2013 og 376/2013 og mæla fyrir um form tilkynninga eftirlitsstjórnvalds, heimaaðildarríkis evrópsks áhættufjármagnssjóðs til eftirlitsstjórnvalda í gistiríki á milli eftirlitsstjórnvalda og frá eftirlitsstjórnvaldi til Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunarinnar.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á lagabreytingu og er gert ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi á komandi löggjafarþingi fram frumvarp til innleiðingar á því,

Nefndin leggur því til að tillagan verði samþykkt.

Undir það rita sú sem hér stendur, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Logi Einarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Bryndís Haraldsdóttir, Gunnar Bragi Sveinsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Smári McCarthy og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.