149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[12:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Við ræðum hér nefndarálit með breytingartillögu varðandi tillögu til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023. Ég ætla á eftir að skýra örstuttan fyrirvara sem ég hafði við samþykkt nefndarálitsins. Hann lýtur ekki að meginefni þingsályktunartillögunnar eða nefndarálitsins. Þar er allt frekar hefðbundið. Þar er verið að bæta í. Það er jákvætt að við sjáum að það er ákveðinn metnaður varðandi það að auka framlögin. Ég fagna því sérstaklega að sjá það í ljósi þess að fyrir nokkrum árum voru þeir sem nú halda um stjórnvölinn ekkert sérstaklega ginnkeyptir fyrir því að auka mikið til þróunaraðstoðar.

Hvað um það. Það er ánægjulegt að sjá að horft sé til hækkunar á framlögum Íslands. Auðvitað eigum við enn þá langt í land með að komast þangað sem við höfum lofað að gera. Velta má fyrir sér hvort það sé í rauninni heilbrigt fyrir okkur að vera með markmið sem við erum sífellt að draga lappirnar við að ná í staðinn fyrir að setja fram trúverðuga áætlun þar sem allir geta sammælst um að ná markmiðinu á skemmri tíma en nú er áætlað.

Þegar birta tók til eftir hrunárin voru sett fram mikil loforð af hálfu þáverandi ríkisstjórnar, ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem vitanlega stóðust engan veginn, sem engin innistæða var fyrir. Við eigum samt sem áður að vera svolítið brött þegar við horfum á þessi mikilvægu mál því að þróunarmál snúast ekki bara um að hjálpa fátæku fólki, þau snúast vitanlega líka um að vernda allan heiminn, að gera sem flestum íbúum heims kleift að búa við mannsæmandi kjör og aðstæður.

Þróunarmál snúast um að reyna að koma í veg fyrir áframhaldandi neikvæða þróun þegar kemur að loftslagsmálum, hlýnun jarðar, eyðimerkurmyndun o.s.frv. Þróunarmál og slíkt snúast um að jafna kjör fólks með það að markmiði að fleiri hafi það þokkalegt, að fleiri geti barist gegn vánni sem klárlega fylgir umhverfisbreytingum. Eitt af því sem skiptir þar miklu máli og mig langar að nefna hér, forseti, er að í ljósi þeirrar miklu áherslu sem Ísland hefur lagt í gegnum árin á jafnréttismál og jafnan hlut kvenna og karla held ég að áhugavert væri að sjá hvar við getum beitt okkur enn frekar í því að berjast fyrir því að konur geti eignast t.d. land og landgæði eða fyrirtæki og farið í rekstur á við karlmenn. Það er ekki sjálfgefið í allt of mörgum löndum. Það eru hins vegar tækifæri sem við ættum að ræða, eða áætlun sem við ættum að skoða. Í þingsályktunartillögunni sjálfri er talað frekar stutt, finnst mér, um þennan málaflokk þegar kemur að þeim sóknarfærum sem við höfum í því að efla, nefnilega konur. Minnst er á ályktun Sameinuðu þjóðanna 13/25 sem er mjög mikilvæg, um konur, frið og öryggi, en ekki síst þurfum við að huga að efnahagslegum þáttum þar sem við getum lagt okkur fram til þess að bæta stöðu og hag kvenna.

Það minnir mig á sögu sem ég heyrði þegar ég heimsótti Malaví, eins og margir hér hafa gert. Þar voru fjármunir veittir til hóps kvenna til að kaupa reiðhjól. Þær áttu að geta keypt tvö reiðhjól, minnir mig, til að geta ferðast um á og heimsótt konur í barnsnauð eða til að aðstoða þær. Þessar ágætu konur tóku þá ákvörðun að leigja annað reiðhjólið. Þær leigðu það manni sem gat nýtt það í annað, og fengu fyrir það umtalsverða fjármuni sem þær gátu síðan nýtt til þess að styrkja og efla enn frekar það umhverfi sem þær voru að vinna í. Þarna sjáum við að það þarf ekki mikið til að kveikja neista hjá fólki sem er alla daga að reyna að bjarga sér. Þarna sáum við það í verki.

Mig langar líka að nefna grein úr greinargerðinni með þingsályktunartillögunni. Á blaðsíðu 8 í greinargerðinni er talað um alþjóðlega þróunarsamvinnu og það þekkjum við. Að sjálfsögðu eigum við að fylgja eftir þeim samningum eða því sem við höfum skrifað undir og höfum ákveðið að taka þátt í, eins og Parísarmarkmiðunum og fjármögnun þróunar í Addis Ababa og allt það. Ég hef þó áhyggjur af því að mér finnst vanta sérstaklega inn í þá hugsun hjá stjórnvöldum að reyna að búa til jákvæða hvata til að berjast gegn auknum útblæstri og gróðurhúsaáhrifunum.

Ég hefði viljað sjá að í stað þess að horfa sífellt á að hækka gjöld eins og kolefnisskatta og kolefnisgjöldin og slíkt þá færum við hina leiðina, myndum t.d. hreinlega veita skattafslátt þeim sem tilbúnir eru til að leggja jarðefnaeldsneytisökutækinu sínu og fara í umhverfisvænni ökutæki, að búa til einhvers konar skattafsláttarkerfi frekar en að reyna að þvinga — ég held reyndar að það hafi ósköp lítil áhrif að hækka kolefnisgjaldið því að menn þurfa áfram að komast leiðar sinnar. Því held ég að nær væri að gera það með jákvæðum hætti.

Nóg um það.

Ástæðan fyrir því að ég er með ákveðinn fyrirvara á nefndarálitinu er sá að mér finnst ekki alveg — ég veit ekki hvernig á að orða það í réttri röð — samhljómur vera á milli þess sem við sáum í fjármálaáætlun og þess sem við sjáum í þróunarsamvinnuáætluninni. Því að við vitum, og það hefur komið fram, að von er á úttekt eða breytingum, ef ég skil þetta rétt, á því hvernig við getum reiknað út framlög okkar og að það á að koma núna á þessu ári. Mér finnst svolítið sérstakt að ekkert sé tekið á því, ekki veittar neinar upplýsingar í sjálfu sér almennilega fyrir nefndinni. Það kann vel að vera að það sé eðlilegt að menn séu ekki komnir nógu langt.

Mér finnst svolítið sérstakt þá að vera að samþykkja hér einhverja áætlun þar sem gert er ráð fyrir einhverri skiptingu og prósentum og slíku þegar þetta getur jafnvel allt saman breyst, eins og ég hef skilið málið, ekki síst ef við þurfum að endurreikna öll framlög okkar út frá því hvað við megum taka inn og hvað ekki. Að því lýtur sá fyrirvari sem ég hafði við þetta mál allt saman.

Síðan langar mig að nefna að við höfum í gegnum árin beint athygli okkar mjög mikið að jarðhita og jafnréttismálum, sjávarútvegi, sem er gríðarlega gott. Ég held hins vegar að við eigum að gefa enn þá meiri gaum og jafnvel að horfa til þess hvort við getum forgangsraðað — alltaf vont að segja það því að það getur verið misskilið á alla vegu — og horfa meira til þess þáttar sem ég held að við getum beitt okkur miklu meira fyrir en við gerum í dag, það er þegar kemur að sjálfbærri landnýtingu, landgræðsluvistfræði, sem er einmitt merkt og komin fram í breytingartillögu nefndarinnar.

Landgræðsluskólinn, einn af háskólum Sameinuðu þjóðanna, er alveg ótrúlega mögnuð stofnun. Þar er unnið gríðarlega merkilegt starf og gott, ekki síður en í hinum skólunum. Ég held að það væri áhugavert fyrir íslensk stjórnvöld að reyna að nýta betur þá sérþekkingu sem þar er og koma henni enn þá betur á framfæri því að landeyðing er eitt af stærstu vandamálum okkar í dag. Hún ekki síst, er áhrifavaldur á versnandi heilsufar umhverfis okkar.