149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019--2023.

345. mál
[12:14]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér, eins og fram hefur komið, þingsályktunartillögu um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2019–2023. Við vitum að öflugasta tæki til að stuðla að friði í heiminum er að draga úr ójöfnuði. Áherslur íslenskra stjórnvalda í utanríkismálum verða að mínu mati að bera þess rækilegt vitni, því að hægt er að stuðla markvisst að því að draga úr ójöfnuði með beinum aðgerðum, í ræðum og ritum. Og þegar talað er um beinar aðgerðir eru það aðgerðir á borð við þróunarsamvinnu. Þetta getum við gert á alþjóðavísu til að jafna kjör fólks um allan heim, en líkt og við vitum er sívaxandi ójöfnuður ein mesta ógn við heimsfrið.

Þegar kemur að aðgangi að auðlindum og náttúrulegum gæðum er ójöfnuður oft uppspretta átaka, fátæktar og félagslegrar niðurlægingar, sem býr til ósanngjarna misskiptingu gæða á milli heimsbúa og leiðir til harðvítugra átaka á milli fólks. Jöfnuður á milli manna er grundvöllur friðar og um það verður Ísland að tala og beita sér fyrir í hvívetna. Við verðum að vera óhrædd í áherslum okkar í alþjóðamálum, að stuðla að og beita okkur með beinum og markvissum hætti að því að koma á fót róttækum breytingum hvernig við útdeilum völdum gæðum milli ríkja sem og innan þeirra, svo sem á milli stétta, kynja og kynþátta.

Ísland á að mínu viti að beita sér alþjóðlega fyrir efnahagslegum jöfnuði á milli fólks sem dregur úr líkum á því að átök brjótist út. Þá kemur að áherslum okkar í þróunarsamvinnu sem eru hér til umræðu í þetta skiptið.

Tillaga þessi kemur inn á þróunarsamvinnu okkar til næstu ára og hafa fjármál og fjárveitingar til málaflokksins verið mikið til umfjöllunar í umræðunni.

Í þeim umsögnum sem bárust við meðferð málsins í nefndinni ríkti samhljómur um að tillagan væri jákvæð og henni bæri að fagna. Helstu athugasemdir sneru að því að ekki væri gengið nægilega langt í að ná yfirlýstu markmiði um að framlög Íslands til þróunarsamvinnunnar yrðu 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu. Þó væri vissulega jákvætt skref að stefnt væri að því að framlögin verði 0,35% árið 2022. Það er vissulega mjög jákvætt að loksins skuli nú áætlað að framlag Íslands til þróunarsamvinnu skuli hækka smátt og smátt næstu árin.

Líkt og áður fagna ég þeim áherslum í þróunarsamvinnu Íslands sem fram koma í þingsályktunartillögunni um að valdefla konur og stúlkur í þróunarríkjum og efla aðgang þeirra að menntun. En ég hefði viljað sjá, líkt og fleiri þingmenn sem hér hafa talað, enn metnaðarfyllri markmið í fjárframlögum Íslands til þróunarsamvinnunnar, að við myndum loksins standa við loforð okkar um að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um að veita 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu og þar með skipa okkur loksins við hlið þeirra landa sem við miðum okkur alla jafna við. Þetta á kannski sérstaklega við þegar ríkissjóður hefur sjaldan eða aldrei staðið jafn vel.

Eins og fram kemur í nefndarálitinu er mikilvægt að íslensk stjórnvöld styðji áðurnefnd markmið Sameinuðu þjóðanna um að iðnríki veiti sem nemi 0,7% af vergum þjóðartekjum til þróunarsamvinnu og að Ísland veiti í það minnsta 0,2% af vergum þjóðartekjum til fátækustu þróunarlandanna. Nefndin tekur að sjálfsögðu undir þau sjónarmið sem fram komu við meðferð málsins að mikilvægt sé að vinna ötullega að því að ná þessu 0,7% markmiði.

En ég vil líka vekja athygli á því sem fram kemur í nefndarálitinu að skoða þarf nánar það fyrirkomulag að hluta af því fjármagni sem fer í málaflokkinn er varið til aðstoðar flóttafólki og umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi. Því miður er það enn þá svo að Ísland veitir of stóran hluta af þeim framlögum til þróunarsamvinnunnar í aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur hér innan lands. Og þó að þeir fjármunir séu hluti af opinberri þróunaraðstoð Íslands á erlendri grundu fellur það einfaldlega alls ekki undir almennar skilgreiningar á þróunarsamvinnu og er alls ekki í samræmi við áherslur Íslands í þeim málaflokki.

Í síðustu jafningjaúttekt DAC-nefndarinnar er minnst á þetta hlutfall, sem er tæplega 12–13% af þeim fjármunum Íslands sem fara í málefni flóttafólks og hælisleitenda af þróunarsamvinnufjármunum. Við getum vonandi flest verið sammála um að það þarf sannarlega að auka fjármuni í málaflokkinn sem snýst um hælisleitendur og móttöku fólks sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd en ekki að taka þá fjármuni af fjármunum þróunarsamvinnunnar. Málefni flóttafólks og hælisleitenda hér á landi falla undir verkefnasvið velferðar- og innanríkisráðuneytisins og eiga að vera aðskilin framlagi Íslands til þróunarsamvinnu á alþjóðavettvangi.

Að því sögðu þarf Ísland að axla ábyrgð og koma fólki í neyð til hjálpar eins og mögulegt er, bæði með því að taka á móti fleira flóttafólki og styðja það í því að geta lifað með reisn annars staðar í heiminum. En það gerist líka í gegnum þróunarsamvinnu og meiri fjármuni í þá vinnu. Íslandi ber siðferðisleg skylda til að auka framlag sitt í þróunar- og mannúðarmál og að því eigum við að stefna af alefli, því að enginn vill flýja. Enginn kýs það hlutskipti í lífinu að flýja heimahaga sína vegna stríðsátaka, ófriðar eða fátæktar.

Ég vil líka nota þetta tækifæri í umræðunni um þingsályktunartillöguna og hrósa því sem hefur verið vel gert í þróunarsamvinnu á vegum íslenskra stjórnvalda og því sem íslensk stjórnvöld og íslenskir starfsmenn þróunarsamvinnu hafa komið til leiðar í gegnum þá vinnu. Íslensk verkefni hafa vakið mikla athygli og fjármunir hafa verið vel nýttir.

Mig langar að lokum að vekja athygli á breytingum á orðalagi er varðar umhverfisþáttinn sem er sífellt að verða stærri og umfangsmeiri þáttur þróunarsamvinnu. Við sjáum það á ýmsum stöðum að fólk er farið að flýja heimahaga sína, ekki eingöngu vegna stríðsátaka eða skerandi fátæktar, heldur vegna loftslagsbreytinga. Við sjáum það og því er spáð að næstu stóru fólksflutningar á heimsvísu verði vegna loftslagsbreytinga. Þar erum við helst að líta til þeirra landa í kringum Sahara-eyðimörkina í Afríku og þess vegna ríður svo mikið á að við setjum mikla vinnu í það að sporna gegn þeim loftslagsbreytingum sem við stöndum frammi fyrir og að við tengjum það líka við þróunarsamvinnuna.

Þessar breytingar á orðalagi eru í takt við ábendingar sem nefndinni bárust í umsögnum um tillöguna. Ég vil vekja athygli á þeim vegna þess að við stöndum á miklum tímamótum er varðar loftslagsmálin. Þau snerta okkur öll sem á jörðinni búa, ekki síst fátækasta fólkið sem býr við mestu neyðina og hefur minni tækifæri en við sem búum við meiri allsnægtir til að snúa þessari þróun við og beita okkur af alefli gegn loftslagsbreytingum.

Frú forseti. Þrátt fyrir þessar miklu athugasemdir sem ég kem á framfæri í ræðu minni varðandi framlög okkar til þróunarsamvinnu og þær ítrekuðu óskir mínar og annarra þingmanna um að hækka þau framlög í takt við þær alþjóðlegu skuldbindingar sem við höfum axlað og styðjum við, þá er það samt sem áður jákvætt að þau framlög séu að hækka og að við beitum okkur af alefli fyrir því að aðskilja þessa fjármuni frá þeim fjármunum sem notaðir eru til móttöku hælisleitenda og fólks sem hingað leitar eftir alþjóðlegri vernd. Í báða þessa málaflokka þurfum við að setja meiri fjármuni til að axla þær siðferðislegu skyldur okkar í alþjóðlegu samhengi.