149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2017.

414. mál
[14:45]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða staðfestingu ríkisreiknings 2017, frumvarp til laga þar um, og nefndarálit hv. fjárlaganefndar sem hv. þm. Haraldur Benediktsson fór hér mjög vel yfir í sinni greinargóðu framsögu. Vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þá yfirferð. Í sjálfu sér er ekki miklu við hana að bæta, enda fór hv. þingmaður afar vel yfir helstu álitaefni og ábendingar þær sem nefndin setur fram hér aftast í nefndarálitinu.

Viðamikil breyting hefur sannarlega orðið á reikningsskilum og má segja að að einhverju leyti marki hún byltingu frá því sem verið hefur. Það eru aðeins örfá ríki sem hafa innleitt alþjóðlega reikningsskilastaðla að fullu, eins og Ísland er í ferli með að gera. Sérstaða reikningsins nú er sú að þetta er fyrsta árið af þremur sem þetta ferli á við um. Verið er að innleiða þessa alþjóðlega reikningsskilastaðla. Þannig er í 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins gert ráð fyrir því að stofnefnahagsreikningur A-hluta ríkissjóðs, 1. janúar 2017, verði staðfestur. Eins og reyndar kemur fram í 2. gr. er það í samræmi við 58. gr. laga um opinber fjármál, þar sem segir að ráðherra skuli leggja fram frumvarp á Alþingi til staðfestingar á ríkisreikningi.

Þannig er staðan. Þess vegna er reikningurinn hvorki samanburðarhæfur við fyrri ár né næstu tvö árin þar til áætlaðri innleiðingu er lokið, þannig að endanlegur stofnefnahagsreikningur 1. janúar 2017 liggi fyrir í endanlegri mynd. Mesta breytingin og sú sem langmest munar um er að í efnahagsreikningnum er nú í fyrsta sinn verið að verðmeta annað en peningalegar eignir. Til þessa hafa fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum verið gjaldfærðar að fullu við kaup og því hafa slíkar eignir, eins og fasteignir, jarðir, lóðir, vélar og tæki, ekki verið sýndar í efnahagsreikningi en eru nú eignfærðar í fyrsta sinn og metnar á uppfærðu, áætluðu, afskrifuðu kostnaðarverði.

Eins og fram hefur komið áritar ríkisendurskoðandi reikninginn án álits. Ríkisendurskoðandi velur þá leið og gerir ágætlega grein fyrir þeirri áritun til Alþingis í ríkisreikningi þar sem kemur m.a. fram að í ákvæði 52. gr. laga um opinber fjármál er kveðið á um að ríkisreikningur skuli settur fram samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum sem miða við rekstrargrunn, eða IPSAS. Það er skammstöfunin, virðulegi forseti, fyrir; „International Public Sector Accounting Standards“.

Það er gert ráð fyrir að taki nokkur ár að þróa þær breytingar sem hér eru og má, þegar ríkisreikningur er lesinn, sjá að þær eru margháttaðar og flóknar og geti því verið allt að þremur árum í þessu ferli — og er það heimilt. Það eru ákvæði í þessum stöðlum um að það geti tekið þann tíma þar til fullri innleiðingu á nýjum reikningsskilareglum sé lokið. Lætur ríkisendurskoðandi þar af leiðandi ekki í ljós álit sitt á reikningnum.

Í svari ríkisendurskoðanda til nefndarinnar um það hvort Alþingi sé þá fært að staðfesta ríkisreikning án fyrirvara segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Áritun ríkisendurskoðanda felur í sér að ekki er hægt að leggja mat á hvort ríkisreikningurinn gefi glögga mynd af rekstri og fjárhagslegri stöðu og fjárhagslegri þróun ríkissjóðs í samræmi við reikningsskilareglur sem um það gilda.“

Það er samkvæmt lögum um opinber fjármál. Í því sambandi er vísað til þess að innleiðing nýrra reikningsskilareglna er yfirstandandi og því ekki hægt að leggja mat á áhrif þess að IPSAS-staðlarnir hafi einungis verið innleiddir að hluta. Að áliti ríkisendurskoðanda getur Alþingi staðfest ríkisreikning eins og hann er lagður fram með vísan til endurskoðunarskýrslu ríkisendurskoðanda og á þeirri forsendu að verið sé að innleiða nýjar reikningsskilareglur.

Þetta kemur fram í svari ríkisendurskoðanda við spurningum sem nefndin sendi á ríkisendurskoðanda í framhaldi af vinnu með skýrslu ríkisendurskoðanda. Á móti kemur að þegar innleiðingu er lokið með ríkisreikningi 2019 kemur fram raunveruleg eignastaða ríkisins í fyrsta sinn. Í framhaldi af því er hægt að leggja mat á hvort viðhald eigna sé viðunandi og er það mjög mikilvægt innlegg í umræðuna um innviðafjárfestingar, til að mynda. Þannig mun ríkisreikningur framvegis gefa miklu fyllri upplýsingar en verið hefur fram til þessa.

Gera má ráð fyrir að í kjölfarið verði ákvarðanir um fjárfestingar teknar á betri grunni en áður. Þar er m.a. vísað í reynslu erlendis frá, eins og hv. framsögumaður kom að í sínu erindi. Ljóst er að uppgjör ríkisins verður flóknara en verið hefur fram til þessa og til að ná fram samanburði við fjárlögin er nauðsynlegt að sýna uppgjörið líka með svokölluðum hagskýrslustaðli, GFS. Með leyfi forseta útleggst GFS: „Government Finance Statistics“. Nefndin gerir í raun og veru gerir kröfu um að framvegis verði þennan samanburð að finna í ríkisreikningi hvers árs.

Það er viðvarandi viðfangsefni að ná fram bæði skýrum og innihaldsríkum reikningi en líka þannig að framsetningin sé með þeim hætti að það sé einfalt og aðgengilegt fyrir hinn almenna lesanda að skilja og geta lesið í breytingar á milli ára.

Það kann einhver að spyrja sig hvers vegna Alþingi sé að staðfesta ríkisreikning umfram þá lagalegu skyldu sem fram kemur í 58. gr. laga um opinber fjármál, hvar fram kemur að ráðherra skuli leggja fram frumvarp til Alþingis til staðfestingar á ríkisreikningi eins og það frumvarp sem við samþykkjum hér. Þá er með frumvarpinu verið að breyta fjárheimildum málefnasviða og málaflokka og þar með er óhjákvæmilegt að komi til kasta þingsins að staðfesta þær breytingar, ekki einungis gjöld og tekjur heldur og þær breytingar á heimildum sem í frumvarpinu felast, og að slíkar breytingar verði ávallt til staðar í frumvarpi til staðfestingar ríkisreiknings þar sem óhjákvæmilegt er að fella niður, eftir atvikum, árslokastöðu, eða flytja á milli ára, og hvort tveggja kallar á breytingar upphaflegra fjárheimilda. Slíkar breytingar geta ekki orðið án atbeina Alþingis.

Það kemur fram í nefndaráliti að hv. fjárlaganefnd hyggst fylgja eftir skýrslu ríkisendurskoðanda frekar. Nefndin hefur þegar sent ítarlegan spurningalista og fengið svör við honum og hyggst vinna áfram með þann þátt. Ég fór m.a. yfir og nýtti þau svör til að svara hér þeirri sérstöku áritun sem um ræðir. Nefndin telur ástæðu til að fara í frekari gagnaöflun og gera frekari grein fyrir þeirri vinnu síðar. Ekki síst vegna þess að við erum í innleiðingarferli sem stendur yfir en framvegis mundum við telja eðlilegt að umfjöllun um staðfestingu ríkisreiknings og skýrsla um ríkisendurskoðanda falli saman í tíma. Ég vil bara af því tilefni nefna ábendingu nr. fjögur sem kemur fram hjá nefndinni hér í lok nefndarálits.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að svo stöddu, virðulegi forseti, og þakka sérstaklega hv. þm. Haraldi Benediktssyni, framsögumanni málsins, fyrir að fara ítarlega yfir þær ábendingar sem nefndin hafði og úrvinnslu málsins.