149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2017.

414. mál
[14:56]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans spurningu, sem var nú kannski meira vangaveltur sem við höfum verið að fara í gegnum í nefndinni. Allar eru þær, vil ég bara leyfa mér að segja, eðlilegar og allt eru þetta eðlilegar spurningar sem við í nefndinni höfum farið yfir og við höfum fengið á fund nefndarinnar ráðuneytið og ríkisendurskoðanda. Og kannski þess vegna, þrátt fyrir að hv. þm. Haraldur Benediktsson, framsögumaður nefndarinnar, hafi rakið vinnu nefndarinnar afar vel og engin ástæða kannski til að fylgja því eftir í sérstakri ræðu, fannst mér ástæða til að koma upp og ræða þetta sem innleiðingarferli.

Mér fannst hv. þingmaður koma hér í andsvari inn á það sem er kannski önugt í þessu. Það er svo langt um liðið; í fyrsta lagi erum við að tala um í svona tímarúmi 2017, stofnefnahaginn; og svo eru ákvæði í IPSAS-stöðlunum sem gera ráð fyrir að þetta taki einhvern tíma, allt að þremur árum. Þau þrjú ár eru liðin. Við erum samt að horfa á hliðrun í tíma.

Ég get bara tekið undir með hv. þingmanni. Við vorum með ítarlegan spurningalista sem sneri að endurskoðun á skýrslunni, sem er mjög upplýsandi, kannski umfram það sem kemur í ályktuninni í sjálfum reikningnum, um það, því að auðvitað blasir við þessi spurning um áritun án álits, sem hangir auðvitað bara á því að þetta er í þessu ferli.

Þess vegna sá ég ástæðu til að fara ítarlegar yfir það, án þess að kannski getað svarað beint þeim vangaveltum sem hv. þingmaður réttilega, vil ég segja, kom með hér.