149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

staðfesting ríkisreiknings 2017.

414. mál
[15:00]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir hans andsvar og þær vangaveltur og áhyggjur sem hann veltir upp í sínu andsvari — og það með réttu. Kannski var það þess vegna sem ég sá ástæðu til að koma hingað í ræðu, vegna þess að það er auðvitað líka á sama tíma mikilvægt fyrir hv. fjárlaganefnd og fyrir aðra hv. þingmenn. Því að í þessu felst að staðfesta ríkisreikning.

Einhver kann að spyrja: Af hverju er Alþingi að staðfesta ríkisreikning? Ég fór yfir það og tengdi það fjárheimildum. Þannig að óhjákvæmilega verður það að gerast fyrir atbeina Alþingis.

Svona til stuðnings þessu — ég tek undir með hv. þingmanni og kom inn á það í minni ræðu með skýrleikann til framtíðar — er það einmitt þess vegna sem nefndin í heild sinni setur fram ábendingar hér, í fyrsta lagi nr. tvö, að framvegis þurfi séryfirlit sem skýri að fullu mismunandi afkomu ríkissjóðs eftir því hvort mælt sé samkvæmt GFS-staðli eða IPSAS-staðli að fylgja ríkisreikningi. Um það erum við sammála.

Þriðja ábendingin er að einsdæmi er að ríkisreikningur sé áritaður án álits af hálfu ríkisendurskoðanda. Óheppilegt er að framhald verði á því þrátt fyrir að innleiðingu IPSAS ljúki ekki fyrr en með reikningsárinu 2019. Þar erum við í raun og veru að segja: Ja, það eru einhver ákvæði sem heimila að þetta taki einhvern tíma en við viljum ekkert endilega að það verði ekki um slíka áritun að ræða að ári liðnu.

Í fjórða lagi er að framvegis þarf endurskoðunarskýrsla ríkisreiknings að berast Alþingi á sama tíma og frumvarp til staðfestingar viðkomandi ríkisreiknings er lagt fram. Þannig að við getum þá tekið þessi mál samhliða og þetta liggi allt skýrt fyrir.

En umfram allt að til framtíðar verði ríkisreikningur með þeim hætti að hinn almenni lesandi geti haft gagn af og séð glögga mynd af fjárhagi ríkissjóðs og afkomu.