149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Það er eiginlega bara ein spurning sem vaknaði þegar ég var að hlusta á ræðu hv. þingmanns, eitt atriði sem mig langar að spyrja út í. Það er partur af rökstuðningi meiri hluta nefndarinnar fyrir því að frumvarpið gangi fram óbreytt, þá er ég að tala um viknafjöldann, að konur sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður, séu langt leiddar af fíkn o.s.frv., hafi þurft að leita til Bretlands í fóstureyðingu undanfarin ár. Mig langaði til að vita hvort meiri hluti nefndarinnar búi yfir upplýsingum um það hversu mörg tilvik þetta eru, t.d. á ári undanfarandi fimm, sex ár, hvort hv. þingmaður geti svarað mér því.