149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta velfn. (Anna Kolbrún Árnadóttir) (M):

Hæstv. forseti. Fyrsti minni hluti tekur að mörgu leyti undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð frumvarpsins um að leggja áherslu á sjálfsákvörðunarrétt kvenna og rétt einstaklinga til að taka eigin ákvarðanir um barneignir. Fyrsti minni hluti bendir þó á að markmiðið með því að fella ákvæðið þungunarrof úr lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir, nr. 25/1975, og víkja frá ákvæðum þeirra laga sem fela í sér heimild til mismununar á grundvelli fötlunar, hljóti að vera afnám mismununar á grundvelli fötlunar. Telur 1. minni hluti það ekki vera í samræmi við framangreind markmið að heimila þungunarrof þegar svo langt er liðið á þungun og lagt er til í frumvarpinu, þ.e. til loka 22. viku. Leggur 1. minni hluti því til að þungunarrof verði heimilt til loka 18. viku líkt og lagt var upp með í frumvarpsdrögunum.

Í því sambandi tekur 1. minni hluti undir þau sjónarmið sem fram koma í umsögn ÖBÍ og sameiginlegri umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Félags áhugafólks um Downs-heilkenni. Nánar tiltekið leggur 1. minni hluti áherslu á að samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks bannar mismunun á grundvelli fötlunar. Með því að heimila þungunarrof fram til loka 22. viku sé ekki komið í veg fyrir mismunun í raun enda sé rökstuðningurinn fyrir því að heimila þungunarrof svo seint á meðgöngu að hægt verði að bregðast við þegar fötlun kemur í ljós við 20 vikna fósturskimun. Telur 1. minni hluti þá leið sem farin er í frumvarpinu ekki fela í sér afnám mismununar í raun.

Þá getur 1. minni hluti ekki fallist á það sjónarmið sem fram kemur í áliti meiri hlutans að með því að heimila þungunarrof svo seint á meðgöngu muni konur í erfiðum félagslegum aðstæðum njóta verndar. Telur 1. minni hluti að enn verði hægt að bregðast við aðstæðum þeirra kvenna fyrir lok 18. viku og að fjöldi kvenna sem fer í þungunarrof muni ekki breytast með því að heimila þungunarrof fram til loka 22. viku.

Þá leggur 1. minni hluti áherslu á þá fræðslu sem lagt er til að standi konum til boða samhliða þungunarrofi. Telur 1. minni hluti ekki fullnægjandi að konur fái fræðslu heilbrigðisstarfsfólks, þar á meðal félagsfræðinga, líkt og lagt er til í áliti meiri hlutans, heldur skuli konur einnig eiga rétt á fræðslu frá óháðum aðilum eða sjálfstætt starfandi sérfræðingum.

Að öðru leyti tekur 1. minni hluti undir þau sjónarmið sem fram koma í umfjöllun meiri hlutans um þungunarrof gegn læknisráði og framkvæmd þungunarrofs.