149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:20]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta skýrir málið talsvert í mínum huga. Mig langar samt að spyrja áfram, af því að nú hef ég ekki setið í velferðarnefnd við meðferð þessa máls, hvort hv. þingmaður sé að leggja það til að þessi fræðsla skuli vera einhvers konar skylda eða eitthvað því um líkt.

Ég er alveg sammála því sjónarmiði að í takti við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er mjög mikilvægt að verðandi foreldrar hafi greiðan aðgang að upplýsingum, m.a. um fötlun. Þó svo að ég sé þeirrar skoðunar tel ég hins vegar að sjálfsákvörðunarréttur kvenna gangi alltaf lengra og hann sé aðalatriðið. Að sjálfsögðu sé mikilvægt að fá góða fræðslu.

Ég spyr hvort þingmaðurinn sé að leggja það til með þessu að slík fræðsla verði gerð að skyldu. Ég er ekki viss um að ég sé sammála því að ég myndi vilja ganga svo langt þó svo að ég sé sammála því að þarna þarf að vera gott aðgengi að upplýsingum. Ég ítreka það aftur sem ég hef sagt að auðvitað fylgjum við samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hann er hins vegar ekkert í andstöðu við það að konur ráði alltaf yfir eigin líkama, eða þannig á það að vera.