149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:32]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, þetta eru erfiðar spurningar vegna þess að það er erfitt að svara til um hvernig ein manneskja eigi að geta ákveðið fyrir hönd annarrar manneskju hvað mun koma fyrir hennar líkama næstu níu mánuðina. Sama hvort þau eru gift, sátt eða ósátt, hvort um nauðgun hafi verið að ræða eða kannski bara 13 ára unglinga sem sváfu hjá í fyrsta skipti.

Hv. þingmaður leggur til að ríkisvaldið eigi frekar að hjálpa verðandi mæðrum í vanda en að hleypa þeim í fóstureyðingu. Vill hann hjálpa 13 ára börnum að verða mæður ef þeir vilja það ekki? En 14 ára? En 15 ára börnum? Eiga strákarnir sem börnuðu þær að fá að ákveða með þeim hvort þær treysti sér til að ganga með barn — ef við gefum okkur að ekki hafi verið um nauðgun að ræða? Eiga þeir að fá að vera með í því, eða er það faðir stúlkunnar sem fær í því tilfelli að ákveða hvað kemur fyrir líkama dóttur sinnar?

Ég velti því fyrir mér hversu mikið patríarkí er á bak við þetta nefndarálit hv. þingmanns.

Hv. þingmaður talar um að nauðgun réttlæti þungunarrof. Hv. þingmaður virðist hafa mjög sterkar skoðanir á því hvað það sé sem réttlæti þungunarrof hjá konum sem hann þekkir ekki nokkurn skapaðan hlut. Mér þætti gott að heyra frá hv. þingmanni hver hans skoðun er á öllum þessum körlum sem stunda óvarið kynlíf með öllum þessum 1.000 konum á ári sem fara í þungunarrof. Hver er ábyrgð þeirra áður en þangað er komið? Af hverju einbeitir hv. þingmaður sér ekki að því að tala við kynbræður sína um að stöðva allar þessar þunganir sem ekki er vilji fyrir?

Eigum við ekki bara að fara í smá smokkaátak, hv. þingmaður? Vegna þess að þeir einu sem geta stöðvað óviljandi þunganir í raun og veru eru karlarnir — með því að sleppa því bara að fara svona óvarlega.

En við skulum tala endalaust áfram um konur sem fara í þungunarrof af illum hug, af ekki nógu góðum ásetningi, að þær virði ekki hið heilaga líf sem guð skapaði. Ég velti fyrir mér: (Forseti hringir.) Hvað ef þær fá einhvers konar köllun frá guði um að þær eigi ekki að ganga með þetta barn? Mega þær þetta þá? Hvað er þóknanlegt hv. þingmanni þegar kemur að rétti kvenna yfir sínum eigin líkama?