149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:37]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er áhugavert að lesa yfir nefndarálit frá 2. minni hluta velferðarnefndar og skynja ákveðið þröngt sjónarhorn sem ég a.m.k. upplifði í umræddu nefndaráliti. Ég verð að taka undir með þingmanninum að það fallega við lífið er að það eru mörg mislit blóm í garðinum. Það getur líka, herra forseti, verið það ljóta við lífið. Það eru einmitt misjöfn blóm í garðinum og sum blómin eru algjört illgresi sem beitir annað fólk ofbeldi. Þingmaðurinn kom inn á það og fullyrti að það ætti að sjálfsögðu að leyfa þungunarrof þegar um nauðgun væri að ræða. Þá get ég ekki látið hjá líða að spyrja þingmanninn hvort sú sem óskar eftir þungunarrofi þurfi á einhvern hátt að sanna nauðgunina og hvernig hún geri það. Gerir hún það með því að færa fram lögregluskýrslur? Þarf að hafa verið gefin út ákæra í málinu? Þarf að hafa fallið dómur? Hvernig á þetta allt saman að rúmast innan níu mánaða, 40 vikna meðgöngu?

Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að þetta eigi að vera framkvæmanlegt? Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að það eigi að vera framkvæmanlegt þegar fíkill kemur til læknis gengin 20 vikur með, vitandi ekki að hún væri þunguð og alls óvíst er um hversu vel fóstrið hefur þroskast hjá fíklinum sem hefur verið í harðri neyslu allar 20 vikurnar? Hvernig sér þingmaðurinn fyrir sér að læknir eigi að taka við slíkri beiðni sem kemur frá konu sem óskar eftir þungunarrofi þegar hún veit loksins af því að hún kann að vera þunguð?