149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[17:49]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta velfn. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um breytingu á frumvarpi til laga um þungunarrof frá 3. minni hluta velferðarnefndar. Með frumvarpinu er lagt til að fóstureyðingar verði heimilar til loka 22. viku þungunar. Í gildandi lögum er kveðið á um að fóstureyðingar skuli framkvæma helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans og aldrei eftir 16. viku, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu eða að miklar líkur séu á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Ekki eru slíkir fyrirvarar í frumvarpinu og því heimilar frumvarpið fóstureyðingar í öllum tilvikum til loka 22. viku.

Þriðji minni hluti telur þessa útvíkkun heimildar til fóstureyðinga algjörlega óverjandi, siðferðilega ranga og ganga gegn lífsrétti ófæddra barna. Við lok 22. viku er meðganga hins ófædda barns rúmlega hálfnuð. Einungis 18 vikur eru þá í fæðingu barnsins miðað við fulla meðgöngu. Það er langt í frá að vera hafið yfir allan vafa að ótímabær fæðing við lok 22. viku þýði að fyrirburinn geti ekki lifað af. Um er að ræða aðgerð sem bindur enda á líf ófædds barns sem gæti hugsanlega lifað af fæðingu á þessu stigi meðgöngunnar. Læknar sverja eið að því að bjarga og vernda líf ef þess er nokkur kostur, ekki að eyða því. Þessi óhóflega rýmkun á fóstureyðingarlöggjöfinni gengur þvert gegn sannfæringu og siðferði allra þeirra sem virða rétt ófædda barnsins til lífs.

Þriðji minni hluti telur að miða beri heimild til fóstureyðinga við núgildandi löggjöf, þ.e. við 12 vikur nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar sé stefnt í meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu. Það er almennt viðurkennt að í nær öllum tilvikum er konum fullkunnugt um þungun sína fyrir 12. viku meðgöngu og því ætti það að heyra til undantekninga ef konur geta ekki leitað þess úrræðis sem fóstureyðing er fyrir þann tíma. 3. minni hluti virðir að sjálfsögðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna og yfirráð þeirra yfir eigin líkama, en dregur að þessu leyti mörkin gagnvart lífsrétti hins ófædda barns.

Þá leggst 3. minni hluti alfarið gegn þeirri hugtakanotkun sem frumvarpið byggist á. Fóstureyðing er hugtak sem endurspeglar þann verknað sem felst í aðgerðinni. Hugtakið þungunarrof er hins vegar tilraun til þess að horfa fram hjá alvarleika aðgerðarinnar og freista þess að færa hana í búning hefðbundinnar læknisaðgerðar svo mögulega verði horft fram hjá því að verið er að binda enda á líf ófædds barns í móðurkviði.

Benda má á þá staðreynd að samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis voru 1.044 fóstureyðingar framkvæmdar á árinu 2017, eða að jafnaði fjórar fóstureyðingar hvern virkan dag ársins. Engri konu var neitað um aðgerðina. Engri.

Þriðji minni hluti leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu:

1. Í stað orðsins „þungunarrofi“ í 1. mgr. 1. gr. og hvarvetna annars staðar í frumvarpinu komi, í viðeigandi beygingarfalli: fóstureyðingu.

2. 3. tölul. 2. gr. orðist svo: Fóstureyðing: Lyfjagjöf eða önnur læknisaðgerð sem framkvæmd er að beiðni konu í því skyni að binda enda á líf fósturs.

Við 4. gr.:

a. Í stað „22.“ í 1. og 2. mgr. komi: 12.

b. 2. málsl. 1. mgr. orðist svo: Fóstureyðing skal ætíð framkvæmd eins fljótt og auðið er.

c. Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Skorist heilbrigðisstarfsmaður undan framkvæmd á grundvelli 14. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012, skal tryggt að kona njóti réttinda skv. 1. mgr.

Flokkur fólksins stendur algerlega að þessari breytingartillögu. Eins og fram hefur komið í umræðunni er um mjög viðkvæmt mál að ræða. Þetta er það viðkvæmt mál að það segir sig sjálft að það hlýtur að vera skelfilegt að einhver þurfi að standa frammi fyrir því að taka ákvörðun um að eyða lífi. Ef maður setur það í samhengi þá er það eiginlega ekki í manns verkahring að taka ákvörðun um líf og dauða einhverrar veru, hvort sem það er fóstur, fullburða barn eða annað. Við horfum stundum fram hjá því að við erum svolítið skrýtin í sambandi við hræsni hvað varðar líf fólks. Hvar liggja mörkin? Af því að við verðum að átta okkur á — ég var að enda við að lesa það upp — að hér voru gerðar 1.044 fóstureyðingar á einu ári. Af þeim voru um 40 gerðar af læknisfræðilegum ástæðum. Við erum að rífast um það hérna hvort við eigum að taka inn tilfelli nauðgana, tilfelli þar sem fólk sem er með fíkniefnavandamál. Það er bara smáhluti af þessu.

Það sem við eigum að spyrja okkur að er: Hvers vegna í ósköpunum erum við að eyða 1.000 fóstrum? Hvað er það í þjóðarsál okkar sem veldur því og hvernig stendur á því að við erum búin að búa til svona þjóðfélag? Við eigum aldrei og höfum aldrei haft rétt til þess að eyða, nema, eins og ég segi, ef um líf og dauða er að tefla.

Mér er líka fyrirmunað að skilja að í meðferð nefndarinnar, sem fékk sérfræðinga á sinn fund á nefndasviði — og ég fór að spyrja einfaldra spurninga: Ef maður stendur fyrir framan lækninn og hann segir: Heyrðu, það er eitthvað að fóstrinu. Nú skuluð þið gera fóstureyðingu. (BjG: Læknirinn gerir það ekki.) — Hann gerir það víst og hann hefur gert það og ég hef lent í því, þannig að ég er ekki að fara með fleipur.

Það er ömurlegt til þess að vita að fólk tekur þá ákvörðun að fara í fóstureyðingu á þeirri forsendu að læknirinn segir eitthvað vera að. Hvað skeður? Hvaða ferli fer þá í gang? Er gerð athugun á fóstrinu hvort viðkomandi gallar hafa verið til staðar? Nei, ekki í einu einasta tilfelli. Er það skráð hvað verður um fóstrið? Hvert er ferlið eftir þetta? Ekki er til stafur um það. Það segir mér að við erum á villigötum. Við byrjum á röngum enda, við erum að opna þessa leið og víkka hana út.

Það er alveg með ólíkindum að við skulum leyfa okkur það vegna þess að við eigum að byrja á hinum endanum, þ.e. að koma í veg fyrir að fóstureyðingar þurfi að fara fram. Það er okkar verk, með ókeypis vörnum. Við þurfum að sjá til þess. Með fræðslu. Byrjum að þeim enda, en byrjum ekki að víkka út hluti þar sem búið er að sýna fram á svart á hvítu — að færa það úr 12 vikum í 22 vikur. Hvað á það að gera? Engri konu á Íslandi er neitað um fóstureyðingu. Þannig að ég sé ekki nokkra leið til að átta mig á því hvaða tilgangi þetta á að þjóna. Við verðum líka að átta okkur á því hvenær fóstur verður lífvænlegt. Er það eðlilegt í þessu samhengi: Ef við förum á sjúkrahús og það eru tvær sjúkrastofur hlið við hlið. Í annarri er verið að eyða lífi kannski eftir 22 vikna meðgöngu, en í hinni stofunni er verið að bjarga lífi með öllum ráðum, sem fæðst hefur fyrir 22. viku? Er ekki eitthvað rangt við þetta eða er þetta bara eðlilegt?

Ég fór að spá í það í dag í þegar ég var að hugsa um þetta mál hversu undarlegar skoðanir við erum með um lífið og tilveruna. Við vorum að ræða áðan um rétt feðra. Feður sem standa í skilnaði hafa yfirleitt farið mjög halloka gagnvart því að fá að umgangast börnin sín eða hafa forræði yfir þeim. Það þykir núna orðið sjálfsagt jafnrétti að foreldrar hafi jafnt forræði yfir börnunum sínum, bæði feður og mæður, en í því tilfelli þegar um fóstur er að ræða eiga feður ekki að hafa neinn rétt, ekki þó að þeir séu giftir. Þeim kemur það bara ekki við. Er það eðlilegt? Ég meina, hvar jafnréttið? Á það ekki að virka í allar áttir? Eða á það bara að virka stundum og ekki þess á milli?

Ég veit að það hlýtur að vera alveg hrikalega erfitt að standa frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um að eyða fóstri vegna þess að það er eitthvað að fóstrinu, að einhverjar líkur eru á því að viðkomandi barn fæðist fatlað og þurfi að lifa við þær aðstæður. Hefði ég getað tekið þá ákvörðun fyrir um 40 árum síðan? Nei. Það á enginn að þurfa að taka svoleiðis ákvarðanir.

Það hlýtur að vera hrikalega erfitt að þurfa að velja. Ég tel að við eigum ekki þennan rétt, að taka líf, nema af mjög vel undirbúinni ástæðu og góðum rökum. Jú, það er t.d. eins og ef um nauðgun er að ræða og annað, hvort líf barns eða móður er í hættu, þá verðum við að grípa inn í og við gerum það. Við grípum meira að segja inn í og gerum aðgerðir á fóstri til að reyna að bjarga því svo það fæðist heilbrigt. Þess vegna erum við í andstöðu við sjálf okkur þegar við segjum að það sé bara í fínasta lagi að einhver taki ákvörðun um að fara í fóstureyðingu. Það er bara ekki í fínasta lagi. Það er erfið ákvörðun og á að vera erfið ákvörðun.

Við verðum nefnilega að átta okkur á því hvað við erum að tala um, ég tel að við séum hætt að tala um fóstur þegar við erum komin að 22. viku. Við erum hætt að tala um fóstur, eftir því sem ég best veit, eftir 16. viku. Ég tel að við séum farin að tala um barn.

Setjum það í ákveðið samhengi. Ég hef oft hugsað: Bíddu, erum við tilbúin að samþykkja dauðarefsingar? Ég bara spyr. Erum við tilbúin til þess? Í hvaða tilfellum værum við tilbúin til þess? Hver ætti að taka ákvörðunina? Ég er á móti því. Ég er að tala um menn sem framið hafa ógeðslega glæpi. Samt gæti ég ekki tekið þá ákvörðun. Samt gæti ég ekki réttlætt það að ég hefði rétt til þess, þó að glæpurinn væri framinn gagnvart mér, að drepa viðkomandi.

En í þessu tilfelli erum við að tala um ófætt barn. Þess vegna verðum við að vanda okkur. Við verðum að tryggja að í öllum tilfellum sé þetta neyðarúrræði og síðasta úrræðið sem við ætlum að grípa til.

Ég er búinn að fara í gegnum umsagnir við frumvarpið. Í flestum tilfellum sendir fólk inn athugasemd sem er á móti og í flestum tilfellum er fólk að biðja um að við hugsum málið betur, ígrundum það betur, skoðum það betur, að við förum betur ofan í lögin, vegna þess að við verðum að átta okkur á því að þó að við teljum að læknavísindin séu komin langt á veg eru þau ekki óskeikul. Það hefur algjörlega sannað sig.

Ég spyr líka varðandi þetta skráningarleysi. Þegar læknir bendir á að eitthvað sé að barni og því er eytt, er það þá gert í því tilfelli til að koma í veg fyrir áfallið eftir á þegar kemur kannski í ljós að það var ekkert að. Þá er læknirinn kannski að firra sig ábyrgð á að hafa lagt þetta til, í þessu tilfelli að eyða lífinu. Ég mundi ekki vilja vera í þeirra stöðu, ekki eina mínútu, ekki eina sekúndu.

Þess vegna segi ég það að við verðum að vanda okkur í þessu máli og ég tel að við eigum að fresta þessu frumvarpi. Við eigum að hafna því og vinna það betur. Við eigum að kafa ofan í hvert einasta skúmaskot í þessu máli og sjá til þess að öllum steinum sé velt við og kíkt vel undir þá þannig að ekkert sé þar undir sem ekki er til þess fallið en að vernda líf, eins og okkur ber að gera.