149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:19]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég lét hjá líða að nefna að ég átta mig ekki alveg á því hvers vegna þingmaðurinn, eftir allt sem hann sagði um læknastéttina og það vantraust sem hann ber til hennar, treystir læknum betur en konunni sjálfri til að ákveða hvort þungun sé rofin eða ekki.

Ég læt það liggja milli hluta. Því mig langar að spyrja áfram út í þessar 12 vikur sem þingmaðurinn er að leggja til, sem eru þrenging frá gildandi rétti um fjórar vikur.

Á tímum þegar um allan heim er verið að berjast fyrir frjósemisfrelsi kvenna, rétti kvenna til að ákveða hvort, hvenær og hvernig þær eignast börn — hvernig í ósköpunum stendur á því að Flokkur fólksins vill þrengja rétt kvenna til þungunarrofs frá því sem nú er? Af hverju?