149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um þetta mál. Mig langar til að byrja á því að segja að markmið þessara laga um að tryggja sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi og að virða það forræði með því að veita konum öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði þessara laga og tryggja yfir höfuð forræði þeirra yfir eigin líkama er nokkuð sem ég styð 100%.

Ég er áheyrnarfulltrúi í velferðarnefnd sem hefur haft þetta mál til umfjöllunar og skoðað það vel og vandlega. 60 umsagnir bárust um málið og ég verð að segja að ég er að ákveðnu leyti þakklát þeim ríflega 1.000 konum sem ekki sendu inn sérumsögn heldur voru með á umsögn Kvenréttindafélags Íslands sem var jákvæð gagnvart málinu. Annars hefðum við setið uppi með 1.060 umsagnir, þar af rúmlega 1.040 jákvæðar, og það hefði verið heilmikill lestur til viðbótar við allt annað. En þetta var nú kannski útúrdúr.

Við upphaf þessa máls leggur hæstv. heilbrigðisráðherra fram á samráðsgáttina frumvarpsdrög þar sem kveðið er á um heimildir kvenna, óskoraðar heimildir, til þungunarrofs fram að lokum 18. viku. Málið lá þá ágætlega fyrir, þetta var gott mál, jákvætt hvað varðaði sjálfsákvörðunarrétt kvenna en engu að síður, það var ákveðin truflun, þrengdi það rétt til þungunarrofs frá því sem nú er. Síðan kemur frumvarp hæstv. ráðherra inn í velferðarnefnd og þá með 22 vikna hámarkinu og það eru þá sömu tímamörk og eru höfð við framkvæmd núgildandi laga. Þar er þrengt að sjálfsákvörðunarrétti kvenna.

Þessi tímamörk, 18 vikur annars vegar og 22 vikur hins vegar, ollu því að ég fór í mikla skoðun á gögnum til að athuga hvar mín skoðun á þessum málum myndi liggja. Samkvæmt þeim tölum og þeim gögnum sem velferðarnefnd hefur haft undir höndum og fjallað er sérstaklega um við gerð skýrslu til ráðherra á sínum tíma kemur fram að rúm löggjöf hvað þetta varðar, hvort sem er í Kanada þar sem eru engin tímamörk eða í Bretlandi og Hollandi þar sem þau eru svipuð því sem verið er að leggja til, eru engar vísbendingar um að það verði til þess að konur færi þungunarrofið síðar á meðgönguna eða að þungunarrofum fjölgi. Eins og kom fram í máli hv. formanns velferðarnefndar áðan eru þvert á móti vísbendingar um að það færist framar.

Hér hefur verið spurt úr ræðustól: Af hverju þessar 22 vikur? Byggt á þessum gögnum get ég tekið undir spurninguna: Af hverju einhver tímamörk yfir höfuð ef þetta er þróunin? Við erum að tala um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Mig langar líka í því samhengi að gera athugasemd við það að þeir sem hér hafa talað um hvað þetta sé erfið ákvörðun, ofboðslega íþyngjandi ákvörðun, virðast hafa meiri áhyggjur af heilbrigðisstarfsmönnum þar að lútandi og tala síðan um að konurnar myndu nota þetta sem getnaðarvörn. Hvað á þetta að þýða? Þetta er gríðarlega erfið ákvörðun fyrir konurnar. Örugglega líka erfið ákvörðun fyrir einhverja heilbrigðisstarfsmenn en fyrst og fremst fyrir konurnar. Ég ætla ekki að halda því til streitu að við breytum þessu í engin tímamörk enda er ég samþykk áliti meiri hluta velferðarnefndar. Mig langaði hins vegar að varpa því fram hér að þetta er það sem tölurnar segja okkur.

Síðan langaði mig að koma inn á annað. Ég hef töluvert oft hlustað á þá spurningu, allt að því í formi fullyrðingar, hvort þetta sé ekki allt óþarfi. Þetta sé í lagi eins og það er. Þrátt fyrir að lagabókstafurinn eins og hann er núna sé vægast sagt ekki mjög nútímalegur, þótt við séum með einhverjar uppfærslur, þá hafa ekki margar konur fengið höfnun við beiðni um þungunarrof. Þá getum við bara haft þetta eins og þetta er og allir glaðir. Það er hins vegar staðreynd að það felst hindrun í því að þurfa að fá kvittun frá einhverjum öðrum um að maður uppfylli skilyrði um að taka ákvörðun sem hefur fyrst og fremst áhrif á eigið líf, óháð því hvort beiðnin er síðan samþykkt eða ekki. Bara það að þurfa að fara í gegnum þetta ferli tekur ákvörðunarréttinn af konunni. Þess utan er það hættulegt, mér liggur því miður við að segja ekki síst á þeim tímum sem við lifum núna, að treysta á að almenn viðhorf í samfélaginu bjargi málum, að það þurfi ekki að uppfæra úrelt lög af því að það er hvort eð er ekkert farið eftir þeim. Það getur nefnilega gerst mjög hratt að ráðandi öfl hætti að fara eftir almennum frjálslyndum viðhorfum í samfélaginu og þá er gott að hafa lagarammann til staðar, tryggja með lögum að konur njóti sjálfsagðs sjálfsákvörðunarréttar síns. Það er erfiðara að vinda ofan af slíkum réttindum þegar þau hafa verið tryggð með lögum.

Ég trúi því að þetta frumvarp, verði það að lögum, muni hafa mjög jákvæð áhrif fyrir konur sem þurfa af einni eða annarri ástæðu að ganga í gegnum það gríðarlega erfiða ferli sem það er fyrir þær margar að velta fyrir sér og taka síðan ákvörðun um þungunarrof. Ég er sannfærð um að slíkt gerir enginn að gamni sínu. Ég er sannfærð um að þegar búið er að breyta lögunum þannig að konur hafi sjálfar þennan rétt, þurfi ekki að setjast niður og flytja mál sitt eða biðja um leyfi, þá verði það þeim léttbærara. Það felst í þessari löggjöf engin mótstaða við það að þær fái aðstoð ef þær óska eftir henni. Það gera líka velflestar. Þetta er erfið ákvörðun.

Síðan stuttlega að lokum. Það er eins og það gleymist svolítið að það er alltaf einhver sem tekur ákvörðun um þungunarrofið, við erum bara að tala um hver það er. Þungunarrof er ekki framkvæmt nema einhver taki ákvörðun um það. Breytingin sem hér er lögð til og ég styð er sú að það sé óumdeilanlega konan sem um ræðir sem hefur rétt til að taka þá ákvörðun. Henni stendur til boða fræðsla og ráðgjöf ef hún kýs svo, til viðbótar við nauðsynlega og eðlilega heilbrigðisþjónustu sem aðgerð af þessu tagi kallar á, en ákvörðunin er hennar.