149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Einn af þeim aðilum, eða stofnunum, sem sendi inn umsögn við frumvarpið var Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þar kemur fram að stofnunin telji varasamt að farið sé óðslega í þessu máli því að hér sé um mjög mörg siðferðisleg álitamál að ræða sem þarfnist djúprar og upplýstrar umræðu í samfélaginu. Siðfræðistofnun telur varasamt að heimila fóstureyðingar allt að 22. vikum af meðgöngu.

Síðan leggur stofnunin til að tímamörkin verði þrengd niður í 18 vikur. Jafnframt kemur fram að leggja skuli áherslu á að fötluð fóstur eigi jafnan rétt til lífsins og ófötluð og bendir stofnunin því til stuðnings á sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Það sem mig langaði að spyrja hv. þingmann að varðandi þetta er hvort hv. þingmaður telji þetta ekki vera veigamikil rök fyrir því að fram fari mun víðtækari og meira upplýsandi umræða í samfélaginu um málið.

Telur hv. þingmaður að það sé bara nægilegt að þetta sé rætt í þinginu? Almenningur hefur vissulega haft aðkomu að þessu í gegnum umsagnarferlið í nefndinni. En í ljósi þessarar umsagnar: Er ekki rétt að fara í miklu dýpri og víðtækari umræðu um málið í samfélaginu?