149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:40]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið. Ég þekki það að þetta álit kemur fram og er dregið til baka — og ég hef ekki hugmynd um, frekar en, held ég, hv. þingmaður, af hverju það var. Það getur svo sem hver dregið sínar ályktanir af því.

Aðeins varðandi spurninguna hvort akkúrat ósætti, ef það er ástæðan, eða skoðanaágreiningur á meðal lækna og heilbrigðisstarfsmanna um þetta mál sé ekki áhyggjuefni ætla ég að segja þá skoðun mína, með fullri virðingu fyrir læknum og öðrum heilbrigðissérfræðingum, að þetta er ekki þeirra mál.

Það hefur líka verið rætt töluvert hér í þingsal um að við séum að fara að leyfa þungunarrof og við séum að gera þetta. Við erum við ekkert að því. Við erum að tala um að konur eigi að fá að taka ákvörðun um þetta, hver kona sína ákvörðun, ein, ein og ein. Við erum ekki að gera þetta. Þetta er ekki okkar mál, að setja lög og skerða sjálfsákvörðunarrétt kvenna — yfir höfuð fólks almennt, sem sjaldnast — og ekki sérfræðinga heldur. Þannig að þetta er ekki umræða sem veldur mér neinum heilabrotum.

Ég velti fyrir mér þessari siðfræðilegu nálgun. Ég tel hana vera fullrædda í bili. Ég tel að eins og ég fór í gegnum og tölfræðin sýnir fram á að við munum ekki, með því að samþykkja þetta frumvarp og gera það að lögum, að konur taki ákvörðunina en ekki sérfræðingar úti í bæ, ég tel ekki — eða öllu heldur, ég ætla að snúa þessu við: Ég tel að sú vegferð verði til góðs og sé líklegri til að sætta andstæðar fylkingar um þetta mál í samfélaginu.

Ég held að við verðum bara að láta það koma í ljós hvort ég hafi rétt fyrir mér.