149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:49]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mér fannst mikilvægt að koma hér upp, af því að við erum að tala um lífvænleika fósturs, og nefna að það kom fram að á Landspítalanum, samkvæmt nýburalækni þar, er litið á lífvænleika fósturs frá 23. viku. Þeir reyna aktíft að bjarga börnum frá þeirri viku. Börn fyrir viku 22 eru ekki lífvænleg þó svo að það séu til jaðartilvik utan úr heimi þar sem börn hafa lifað. Það yngsta er 21 vikna plús sex dagar en þau börn eru hins vegar öll mjög mikið sködduð. Þetta eru þær upplýsingar sem ég hef fengið. Í raun er þetta forsenda þessarar ákvörðunar. Ég er alveg sammála því að einhvers staðar þurfum við að setja mörkin og ákveða þau og lífvænleiki fósturs er væntanlega gott mark. Þetta frumvarp byggir á því. Það er mikilvægt að hafa það á hreinu hverjar staðreyndirnar eru.

Varðandi hvernig þetta mál hefur verið unnið þá tók ég sérstakt tillit til þess í nefndinni þegar umsögnin kom frá siðanefnd og við ákváðum að taka þetta mál fyrir og tókum okkur mjög langan tíma. Það komu alveg ótrúlega margir gestir, við hlustuðum á allar raddirnar og allar umsagnirnar og það er ekkert verið að flýta þessu máli í gegn. Mér finnst mikilvægt að það komi einnig fram. Ég segi það aftur, ég hef sagt það oft í þessari umræðu: Eins og staðan er núna þá getur kona fari í þungunarrof við 22. viku miðað við núverandi löggjöf. Breytingin hér er sú að við erum að færa ákvörðunarrétt yfir eigin líkama til konunnar. Það eru þá ekki læknar sem ákveða fyrir hennar hönd hvort hún megi eða megi ekki fara í þungunarrof.