149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[18:55]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka það skýrt fram að þær athugasemdir sem ég hef haft fram að færa við þetta frumvarp eru ekki þess eðlis að ég sé að draga í efa eða leggjast gegn sjálfsákvörðunarrétti kvenna í þessu máli. Ég hélt því fram áðan að þetta væri ekki bara læknisfræðilegt úrlausnarefni. Hv. þingmaður spurði á hverju við ættum að byggja ef ekki sjónarmiðum og skoðunum okkar fremsta fagfólks í þessu efni. Þá verð ég að segja að við eigum líka að byggja á fólki á borð við það sem skipar Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Þetta er ekki að mínu viti bara læknisfræðilegt úrlausnarefni. Það eru ekki læknisfræðileg mörk einvörðungu sem verið er að draga þarna á milli þeirra vikna sem hér er um að ræða. Þetta eru líka siðferðislegar spurningar sem við verðum að svara. Ég held ekki, með fullri virðingu fyrir læknunum sem hafa tjáð sig um þetta og samtökum þeirra, að þeir séu neitt betur í stakk búnir til að svara þeirri spurningu en bara sá sem hér stendur eða hv. þingmaður sem var að beina til mín spurningu í þessum andsvörum. Ég held að þetta sé siðferðislegt. Þetta er pólitísk spurning og siðferðisleg ef þannig mætti orða þetta. Ég held með öðrum orðum ekki að þetta sé læknisfræðilegt úrlausnarefni. Það gætu önnur fagleg sjónarmið komið til greina en bara þau sem læknar hafa fram að færa.