149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:18]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Hv. þingmaður spurði um tímamörkin sem talað er um í umsögn Siðfræðistofnunar Háskólans, en þar er lagt til að mörkin verði færð í 18 vikur. Ég styð núverandi tímamörk eins og þau koma fyrir í lögunum. Varðandi fatlaða hefur það væntanlega verið rætt í nefndinni.

Ég tek fram að ég sit ekki í velferðarnefnd og hafði ekki tök á því að fylgjast með umræðum sem fóru fram um málið þar, sérstaklega hvað varðar fatlaða. Ég hef hins vegar tekið eftir því að samtök eins og samtök um Downs-heilkenni o.s.frv. eru andsnúin frumvarpinu. Það þykir mér benda til þess að ekki sé komið til móts við — ef svo má orða, kannski er það óviðeigandi orðalag í þessu, ég þekki það ekki — það sem hv. þingmaður talaði um, að afnema mismununina sem hún nefndi. Í því ljósi tel ég að þessi breyting breyti í raun engu hvað varðar núverandi löggjöf.