149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[19:22]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Nú þekki ég ekki til í þeim efnum, kannski gerir hv. þingmaður það, og veit ekki um hversu margar konur er að ræða í því sem hv. þingmaður talar um. Þekkir hv. þingmaður hversu margar konur eru neyddar til að ganga með börn? Ég persónulega þekki það ekki, en vonandi eru til einhverjar tölur um það.

Ég vil minna á, eins og ég nefndi í ræðu áðan, að samkvæmt tölum frá landlækni eru 95% fóstureyðinga gerðar undir 12. viku. Einungis 1% þeirra eru gerðar eftir 16 vikna meðgöngu og fyrir því þurfa að vera læknisfræðileg rök. Í því samhengi tel ég að áhyggjuefni hv. þingmanns eigi ekki alveg við. Ég verð bara að segja það.

Það er verið að breyta tímamörkunum og ég tel það áhyggjuefni vegna þess að þá er það langt liðið á meðgönguna að við erum farin að tala um barn. Það hljóta að vera afar þungbær spor fyrir konu að taka ef hún þarf að fara í fóstureyðingu þegar svo langt er liðið á meðgönguna. En ég þekki ekki dæmi um það sem hv. þingmaður talar um. Að sjálfsögðu á ekki að neyða neina konu til að ganga með barn sem hún vill ekki ganga með. Það þarf hins vegar að veita alla þá félagslegu aðstoð og upplýsingar sem nauðsynlegar eru. Þess vegna er mikilvægt í mínum huga að halda slíkri ráðgjöf, vegna þess (Forseti hringir.) að hún kemur til með að hjálpa fólki. Það eru ekki allir sem nýta sér valkvæðu þættina og því tel ég að núverandi fyrirkomulag eigi að vera áfram við lýði.