149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:00]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þungunarrof. Ég vil taka fram, líkt og ég gerði við 1. umr. sem fram fór fyrir áramót, að ég tel að með frumvarpinu séum við fyrst og fremst að taka framfaraskref í þágu réttinda íslenskra kvenna. Það er fyrst og síðast það sem við erum að gera. Við erum að taka ákvörðun um að íslenskar konur hafi sjálfræði yfir því hvernig þær velja að notfæra sér þá þjónustu sem er í boði í heilbrigðiskerfinu.

Þetta er grundvallarmál og í rauninni þarf ekkert meira að segja um málið en það. Þetta er gríðarlega mikið framfaraspor og ég held að við sem þjóð og þing eigum að vera stolt af því. Ég vil sérstaklega hrósa hv. formanni velferðarnefndar fyrir það hvernig hún hefur haldið á málinu, hvernig hún hefur leitt málið í nefndinni og stýrt því á þann stað sem það er núna. Það er til fyrirmyndar því að auðvitað er þetta ekki auðvelt mál. Það er ekki auðvelt að taka fyrir mál sem eru líkleg til að valda skiptum skoðunum í samfélaginu, sem eru líkleg til að vekja upp tilfinningar, en hún hefur gert það af stakri prýði og full ástæða til að nefna það.

Komið hefur fram í umræðunni í dag, eins og hv. þingmenn hafa tekið eftir, að ekki eru allar skoðanir eins. Það eru þrjú minnihlutaálit í málinu sem ég er ekki sammála og kýs að ræða þau ekkert frekar. Ég tel ekki þegar um er að ræða tilfinningamál eins og þetta, sem að vissu leyti velkist með siðferðilegar spurningar og siðfræðilegar spurningar, að umræða í þingsal muni breyta skoðun eða afstöðu manna. Menn verða svolítið eiga það við sig sjálfa.

Ég held að hvaða siðfræðilegu eða siðferðilegu afstöðu sem ég eða einhverjir aðrir þingmenn kunna að hafa til málsins ætti í rauninni að vera hliðaratriði í málinu vegna þess að grundvallarrétturinn er það sem skiptir öllu máli. Það er það sem við erum að tala um og við eigum að einblína á það og ég tel að þá sé nóg sagt.