149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:05]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um lagafrumvarp um þungunarrof, viðkvæmt og ágengt efni. Það snertir lagaleg viðhorf, trúarleg og siðferðisleg, alla mannlífsflóruna. Sitt sýnist hverjum og fyrr en varir erum við á valdi tilfinninganna. Þetta snertir menningu okkar. Þetta er mannréttindamál. Þess vegna telur þingflokkur Samfylkingarinnar mikilvægt að Ísland taki frumkvæði í þessu efni en sé ekki farþegi í samfélagi þjóðanna. Við viljum að sjálfsákvörðunarréttur kvenna skuli vera öðru yfirsterkari þegar kemur að þungunarrofi og kynfrelsi. Það er sterki þráðurinn í þessu frumvarpi að mínu áliti. Það er mikilvægt að konur fái að taka ákvörðun um þungunarrof sjálfar. Það er ekki hlutverk heilbrigðisstarfsmanna, lögfræðinga, félagsráðgjafa né annarra að taka ákvörðun fyrir konu um hvort hún skuli eiga barn. Konum sjálfum er fyllilega treystandi til að taka slíka ákvörðun. Hins vegar verðum við stöðugt að sjá til þess að í boði sé fræðsla og stuðningur eða önnur aðstoð frá fagfólki í tengslum við þessa ákvörðun. Fagfólk, segi ég, því að hér hefur borið á góma að það séu fjölmargir aðrir sem geta veitt aðstoð og það er álitamál en við skulum ekki útiloka neitt í þeim efnum. Mikilvægi þessa er áréttað með skýrum hætti í frumvarpinu. Það er líka mikilvægt að tryggja aðgengi að ráðgjöf á stofnunum, heilsugæslustöðvum og heilbrigðisstofnunum um allt land í ljósi þess að meiri hluti þungunarrofa er af félagslegum ástæðum og því mikilvægt að þeir fagaðilar, sem ráðgjöf og stuðning veita í aðdraganda og eftir þungunarrof, séu með faglega þekkingu að þessu leyti og þá þekkingu verðum við að byggja upp um allt land.

Látið hefur verið að því liggja, í umræðunni um efni þessa frumvarps, að konur kynnu að nýta sér þungunarrof í meira mæli muni það ná fram að ganga. Ég tel það fráleitt og tel það niðurlægjandi umræðu í alla staði. Það er ekkert sem gefur slíkt til kynna sé horft til annarra landa. Aukningin yrði að líkindum ekki meiri en sem nemur hugsanlega þeim fáu tilfellum þar sem konur fara til útlanda í þessar aðgerðir eftir lok 16. viku. Þetta eru konur sem óska þungunarrofs vegna samfélagslegra aðstæðna og geta ekki fengið þungunarrof framkvæmt hér á landi á löglegan hátt. Nákvæmar tölur um fjölda þessara kvenna liggja ekki fyrir vegna þess að það er ekki skráð á Íslandi og það liggja ekki fyrir neinar heilbrigðisupplýsingar um þá einstaklinga sem er miður gott.

Í núgildandi lögum og í þessari umræðu er hluti breytinganna sá að við erum að breyta orðræðunni. Við höfum til þessa talað um þetta hugtak, fóstureyðingu, en notum nú í auknum mæli og samkvæmt þessu lagafrumvarpi hugtakið þungunarrof. Fóstureyðing er mjög gildishlaðið orð og hefur mjög neikvætt yfirbragð. Þungunarrof er auðvitað þungt í sjálfu sér líka en það er að mínu áliti a.m.k. mun hlutlausara og ekki jafn gildishlaðið. Í núgildandi lögum er kveðið á um að heimild til fóstureyðingar verði að grundvallast á læknisfræðilegum eða félagslegum ástæðum eða að þungun sé afleiðing refsiverðrar háttsemi. Við þessar aðstæður er fóstureyðing heimil til loka 16. viku meðgöngu. Auk þessa er í gildandi lögum kveðið á um heimild til fóstureyðingar eftir 16 vikur séu, eins og í lögunum segir, miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs.

Virðulegur forseti. Við vinnu við frumvarpið í velferðarnefnd var lögð áhersla á að ákvæði þess gangi ekki gegn réttindum og markmiðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í umfjöllun velferðarnefndar var þetta viðkvæma atriði sérstaklega fyrirferðarmikið í umræðunni og bar mjög oft á góma, bæði í máli gesta sem komu til fundar við nefndina og meðal nefndarmanna. Menn leituðust við að gæta þess að slá nægilega varnagla í frumvarpið og höfðu í huga reynslu sögunnar. Þess má geta í þessu sambandi að eftirlitsnefnd samnings Sameinuðu þjóðanna hefur gert athugasemdir við löggjöf ríkja þar sem veittar eru heimildir til að framkvæma þungunarrof á öllum stigum meðgöngu þegar fóstur er talið alvarlega fatlað. Þetta er raunin í íslenskri löggjöf þar sem sérstaklega er kveðið á um heimild til fóstureyðingar eftir 16 vikur, eins og nefnt var áðan, og vísað til lagabókstafsins, séu miklar líkur á vansköpun, erfðagöllum eða sköddun fósturs. Þetta orðalag stríðir líka gegn 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, um vitundarvakningu sem skuldbindur ríki til að vinna á móti staðalímyndum og fordómum sem tengjast fötluðu fólki.

Virðulegur forseti. Eitt af þeim atriðum sem tekist er á um eru tímamörk þungunarrofs á meðgöngu. Í umfjöllun um þetta málefni hafa fagaðilar skipst að meginstefnu til í tvennt hvað varðar viðhorf. Flestir fagaðilar fjölluðu um að tilteknir fósturgallar greindust ekki fyrr en seint á meðgöngu, um eða eftir 20 vikna skoðun í sónar, og því væri mikilvægt að konur gætu tekið ákvörðun um þungunarrof fram að lokum 22. viku þungunar. Fagaðilarnir undirstrikuðu allir hve erfið ákvörðun þetta væri fyrir þær konur, og oft maka þeirra, sem í hlut ættu. Það að takmarka þessi réttindi væri neikvætt skref. Allir fagaðilar vörpuðu ljósi á að afar mikilvægt væri að þungunarrof yrði heimilt sem lengst vegna þess að þær konur sem eru í hvað verstu félagslegu aðstæðunum eru oft einmitt þær konur sem ekki átta sig á að þær eru þungaðar fyrr en mjög seint, eiga erfitt með að nálgast þjónustu vegna þungunarrofs vegna þeirra aðstæðna sem þær eru hugsanlega í, mögulega í hjónabandi eða einhvers konar bindandi sambandi. Oft er birtingarmyndin þvingun eða jafnvel ofbeldi. Þetta getur verið vegna tungumálaörðugleika og félagslegrar einangrunar af þeim sökum eða vegna annarra aðstæðna eða blöndunar af þessu.

Við veltum oft fyrir okkur, það kemur upp í umræðunni og hefur m.a. komið upp í umræðunni í dag, hver eigi að ákveða, hver eigi að ráða, hver sé best til þess fallinn að ákveða hvort þungunarrof eigi að eiga sér stað eða ekki. Og hver er betur til þess fallinn að meta sínar aðstæður en konan sjálf? Er löggjafinn betur til þess fallinn að skipta niður í flokka þeim skilyrðum þeim konan þarf að uppfylla til að geta fengið að ganga hér um frjáls og örugg? Eru tveir læknar betur til þess fallnir? Er nefnd skipuð lækni, félagsráðgjafa og lögfræðingi betur til þess fallin?

Svo leitar á hugann spurningin um hugtökin fóstur, sjálfstætt líf og barn. Hvenær nýtur fóstur réttar til lífs? Það er erfitt að gefa skýrt svar. Að einhverju leyti erum við að ræða um heimspekilegar vangaveltur og auðvitað siðferðislegar spurningar, menningarlegar líka. Það er viðtekið að ekki sé litið svo á að um barn sé að ræða fyrr en fóstur telst hafa lífvænlegan þroska og því er ekki litið svo á að horfa eigi til réttinda barna í þessu samhengi. Sérfræðingar á sviði fæðingarlækninga mæla þroska fósturs í mánuðum, vikum og dögum. Svo engrar óvissu gæti í umræðunni um þau viðmið sem til umfjöllunar eru er talað um lok 22. viku þegar konan er gengin 21 viku plús sex daga. Þannig er 22. vika vikan þegar konan er gengin 21 viku og engan dag til 21. viku plús sex daga. Þetta eru þau viðmið sem sérfræðingar á sviðinu nota. Samkvæmt upplýsingum frá sérfræðingum á þessu sviði eru barnalæknar almennt ekki kallaðir til við fæðingu á fyrirbura nema fóstur hafi þroska upp á a.m.k. 23 vikur eða við upphaf 24. viku þar sem líkur eru taldar engar á að barn lifi af. Þeir eru teljandi á fingrum annarrar handar, þeir fyrirburar sem lifað hafa af eftir fæðingu um miðja 24. viku hér á landi. Þau mörk sem lögð eru til, þ.e. lok 22. viku eða 21 vika plús sex dagar, eru því á tímamarki þar sem ekki er reynt að bjarga fóstrum innan heilbrigðisþjónustunnar.

Virðulegur forseti. Markmið frumvarps þessa er skýrt, að tryggja að sjálfsforræði kvenna, sem óska eftir þungunarrofi, sé virt með öruggum aðgangi að heilbrigðisþjónustu vegna þessa úrræðis. Sjálfsákvörðunarréttur kvenna er þungamiðja þessa frumvarps. Sjálfsforræði kvenna til ákvarðanatöku um barneign er nátengt rétti kvenna til öryggis og frelsis. Við erum að tala um mannréttindi. Það orkar mjög tvímælis, svo að ekki sé meira sagt, að heilbrigðisstarfsmenn, lögfræðingar og félagsráðgjafar eða aðrir séu settir í það hlutverk að taka ákvörðun fyrir konuna eða hafa afgerandi áhrif á þá ákvörðun. Konum er, eins og fyrr er sagt, fyllilega treystandi til að taka þessa ákvörðun sjálfar.

Ef konan telur sig hins vegar þurfa ráðgjöf, fræðslu, stuðning eða aðra aðstoð frá heilbrigðisstarfsmönnum eða fagfólki í tengslum við ákvörðun sína er kveðið skýrt á um það í frumvarpinu að henni skuli boðin slík þjónusta. Sú þjónusta getur verið mjög mikilvæg. Hún þarf að vera vönduð og við þurfum að hafa þjálfað fólk til starfa í þeim verkefnum.

Við erum almennt á þeirri skoðun að lögráða einstaklingar beri ábyrgð á lífi sínu og gjörðum og hafi til þess burði og getu. Þess vegna eigum við að horfa til þess í þessari umræðu í auknum mæli. Í frumvarpinu er hugtakið heilbrigðisþjónusta vegna þungunarrofs skýrt á þann veg að í því felist hvers konar heilbrigðisþjónusta sem veitt er þungaðri konu í tengslum við þungunarrof, þar á meðal fræðsla og ráðgjöf sem og framkvæmd þungunarrofs o.fl. Það er vert að velta fyrir sér hve margar konur hafa leitað eftir þungunarrofi og hefur verið synjað um það eftir 16. viku. Heildarfjöldi mála hefur verið frá 11 og upp í 26 á ári frá árinu 2006. Örsjaldan hefur komið til þess að úrskurðarnefnd um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir synji og hefur það þó verið í tilvikum þar sem lagaskilyrði eru ekki uppfyllt og samkvæmt formanni nefndarinnar hefur í slíkum tilvikum yfirleitt verið um félagslegar aðstæður að ræða. Um og yfir 80% þungunarrofa eiga sér stað fyrir lok 9. viku, um og yfir 95% eru framkvæmd fyrir lok 12. viku og því innan við 5% eftir lok 16. viku. Tilvikin eftir lok 20. viku eru yfirleitt innan við tíu á ári.

Virðulegur forseti. Efni þessa frumvarps snertir viðkvæma strengi hjá fjölda fólks, líklega öllum almenningi sem upplifir umfjöllunarefni þetta hver með sínum hætti. Lífssagan er svo fjölbreytileg og í mörgum tilvikum tengist þessi upplifun dapurlegri reynslu, persónulegum raunum eða sorg. Við erum í raun líka að fjalla um upprunann, rætur lífsins. Þetta heggur því nærri hverri lifandi sál. Það er eðlilegt en firrir okkur ekki þeirri ábyrgð að takast á við umræðuna og það líf sem við kjósum að lifa. Það krefur okkur um að setja leikreglur sem hljóta viðurkenningu og njóta eftir atvikum almennrar sáttar. Þetta er ekki auðvelt því að samhliða heyrast þær raddir að þetta séu málefni af þeim toga, svo stór, að maðurinn eigi ekki að voga sér inn á þetta svið, hér eigi sterkari öfl en mannlegt vald að ákveða og að enginn megi fjalla um þetta en æðri máttarvöld, örlögin eigi að ráða, lífið sé heilagt, enginn megi sköpum renna. Sömu öfl segja jafnvel að maðurinn sé orðinn allt of umsvifamikill, djarftækur, uppivöðslusamur og óábyrgur í umhverfi sínu og í samneyti við sitt náttúrulega umhverfi. Hvernig er nú staðan nákvæmlega í því samhengi? Þarf ekki hvert okkar um sig að líta sér nær í því efni með ærlegum hætti?

Virðulegur forseti. Það er einmitt hugtakið virðing sem kemur upp í hugann. Það sem mikilvægt er að hafa sem leiðarljós er einmitt virðing, virðingin fyrir lífinu og, í þessu samhengi sem öðrum, að bera virðingu fyrir ákvörðun og afstöðu konunnar, virðing fyrir siðum og lífsskoðun annars fólks, taka tillit til þess og bera virðingu fyrir trúarskoðunum, jafn breytilegum og þær eru, alls almennings, að bera virðingu fyrir samferðafólkinu og þeim sem þurfa á öllum stigum að koma til liðs þegar og ef þessi lög verða samþykkt hér á hinu háa Alþingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)