149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:34]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Ég bara átta mig alls ekki á því hvernig stendur á því að hv. þingmaður talar ítrekað um að núgildandi löggjöf heimili fóstureyðingar til loka 22. viku. Það er bara alrangt. Ég ætla að lesa úr 10. gr. núgildandi laga þar sem stendur skýrum stöfum í 2. mgr.:

„Fóstureyðing skal aldrei framkvæmd eftir 16. viku meðgöngutímans, nema fyrir hendi séu ótvíræðar læknisfræðilegar ástæður og lífi og heilsu konunnar stefnt í því meiri hættu með lengri meðgöngu og/eða fæðingu.“

Í 1. mgr. stendur náttúrlega:

„Fóstureyðing skal framkvæmd eins fljótt og auðið er og helst fyrir lok 12. viku meðgöngutímans.“

Það er alveg ljóst, hv. þingmaður, að það er verið að útvíkka virkilega þessa grein þegar kemur að því núna. Það þarf ekki einu sinni að koma til sjúkleiki, veikindi, neitt. Það getur bara verið alheilbrigt fóstur — eða barn — 22. vikna óburða barn, bara nákvæmlega þannig.

Og þegar verið er að tala um jaðartilvik, að ég sé að draga þau fram eða spyrja hvort eigi að gera lítið úr þeim jaðartilvikum. Nei, alls ekki. En mér finnst fáránlegt að reyna að gera þau að einhverri aðaláherslu og rökstuðningi við þetta erfiða, viðkvæma mál, þessi skelfilegu jaðartilvik — sem væri gaman að fá að vita hvort séu skráð hvað séu mörg.