149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[20:57]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér, frumvarp til laga um þungunarrof, er líklegast með erfiðari málum sem við ræðum og ég hygg að það séu fá mál sem snerta svona viðkvæmar og erfiðar siðferðilegar spurningar sem hver og einn þingmaður og í rauninni hver og einn landsmaður þarf að svara fyrir sig. Þess vegna er mikilvægt að okkur takist að ræða það frumvarp sem hér er af mikilli yfirvegun. Við eigum líka hugsanlega eftir að ræða hér önnur mál með svipuðum hætti sem vekja upp líka ákveðnar siðferðilegar spurningar þótt ég ætli ekki að gera neinn samjöfnuð þar á milli. Það er þegar við þurfum örugglega að taka afstöðu til þess hvort og með hvaða hætti við leyfum aðstoð við líknardauða.

Ég vil hins vegar byrja á því að fagna að þetta frumvarp sé komið fram. Þau lög sem gilda um fóstureyðingar — og ég verð að biðja hv. félaga mína í þingsalnum að sýna smá biðlund, mér er tamt að tala um fóstureyðingar en ég er að reyna að temja mér nýtt orð, þungunarrof, sem er í sjálfu sér ágætisorð — eru 44 ára gömul og auðvitað barn síns tíma. Ákveðið framfaraspor þegar það skref var tekið en sá galli var kannski fyrst og fremst á þeim lögum að sjálfsákvörðunarréttur kvenna var ekki tryggður, sjálfsákvörðunarréttur kvenna sem standa frammi fyrir þessari ákvörðun, sem er líklegast einhver sú erfiðasta sem nokkur kona getur tekið, að binda enda á þungun. Hann var ekki tryggður. Þetta frumvarp gerir það. Og við eigum öll að virða það.

Við opnum varla rit um siðfræði öðruvísi en að það hafi að geyma kafla sem inniheldur vangaveltur um siðferðilega stöðu fósturs, fóstureyðingar eða þungunarrofs, fósturgreininga og réttmæti þeirra afleiðinga. Og innan siðfræðinnar eru deildar meiningar einmitt vegna þess að þetta eru svo erfið álitamál sem við erum hér á tiltölulega skömmum tíma að taka ákvörðun um. Ég hygg að við öll í þessum sal leggjum áherslu á að það sé staðinn vörður um helgi lífsins, að það beri að virða mannlegt líf og þá reglu eigi að hafa að leiðarljósi innan læknisfræðinnar, í rauninni í öllum störfum okkar líka hér. Um leið verður að hafa í huga að sú virðing fyrir helgi lífsins er líka fólgin í því að sýna líkn. Líknin er ekki endilega fólgin í því að viðhalda og bjarga öllu lífi. Það er nefnilega þannig að því miður er dauðinn ekki alltaf versti kosturinn.

Það sem situr í mér í þessu frumvarpi er sú staðreynd að hér er verið að fara mjög langt inn í það sem ég myndi kalla lífvænleika fósturs, 22. viku. Það er þröskuldur sem ég skal viðurkenna að ég á mjög erfitt með að komast yfir.

Ég las með mikilli athygli þær umsagnir sem bárust til velferðarnefndar. Ég staldraði alveg sérstaklega við tvær, aðra frá hv. fyrrverandi þingmanni, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, sem varð til þess að ég ákvað að blanda mér í þessa umræðu í kvöld, líka vegna þess að þetta er mál sem snertir mig eins og alla aðra. Ég vil fá, með leyfi hæstv. forseta, að vitna í umsögn fyrrum kollega okkar hér í þingsal, Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur, í lok umsagnarinnar:

„Í hnotskurn: Undirrituð leggst alfarið gegn 4. gr. frumvarpsins sem felur í sér útvíkkun tímamarka til fóstureyðinga til loka 22. viku.

Eðlilegt hefði verið að halda fast í óbreytt tímaviðmið samhliða því að taka upp fortakslausan sjálfsákvörðunarrétt kvenna til að binda endi á þungun. Yrði það gert má segja að hugtakið „þungunarrof“ geti átt rétt á sér og verið til áréttingar því sjónarmiði sem liggur til grundvallar sjálfsákvörðunarréttinum.

Að óbreyttu reynir þetta frumvarp mjög á siðferðilegt þanþol þeirra sem að málum þessum koma ekki aðeins heilbrigðisstarfsfólks heldur allra sem láta sig málið varða. Fari frumvarpið óbreytt í gegn er hætt við því að sú sátt sem hefur verið um fóstureyðingar á Íslandi sé rofin. Það yrði óbætanlegur skaði fyrir íslensk kvenréttindi og mannréttindi í víðara samhengi.“

Það er auðvitað að sumu leyti dálítið sérstakt að vera karlmaður að ræða um fóstureyðingar eða þungunarrof vegna þess að ég viðurkenni það að ég get aldrei sett mig í spor þeirra kvenna sem standa frammi fyrir þessari ótrúlega þungbæru ákvörðun að þurfa að binda endi á þungun. Ég ætla aldrei að þykjast skilja slíka ákvörðun og þá byrði sem lögð er á konu. En ef við teygjum okkur upp í 22 vikur þá erum við a.m.k. búin að teygja okkur eins langt og hægt er að gera þangað til að við getum talað um að fóstur, óumdeilanlega samkvæmt læknisfræðinni, sé lífvænlegt og hafi þar af leiðandi siðferðilegan rétt með sama hætti og við sem hér erum sem einstaklingar. Og þá vaknar sú spurning hvort löggjafinn ætli sér að setja slík viðmið, sem eru vissulega alveg á grensunni, vitandi það að framfarir í læknisfræði eru með þeim hætti að við getum búist við því að á komandi árum, ég tala nú ekki um áratugum, verði framfarirnar þær að við getum sagt að fóstur, 20 vikna fóstur, jafnvel 18 vikna fóstur, sé lífvænlegt, verði lífvænlegur einstaklingur. Þá stendur löggjafinn frammi fyrir þeirri spurningu hvort hann ætli að færa viðmiðið niður.

Hæstv. forseti. Eins og bent er á í umsögn Siðfræðistofnunar þá er almennt litið þannig á að siðferðileg staða fósturs styrkist eftir því sem á meðgönguna líður. Ég hef ekki orðið var við að það sé neinn ágreiningur um þetta í þessum þingsal í sjálfu sér. Inngrip sem hafa það að markmiði að rjúfa þungun, eins og segir í umsögninni, og þar með eyða fóstri, verði því þungbærari og siðferðilega vafasamari því lengra sem á meðgönguna líður. Ég hef heldur ekki orðið var við að það sé neinn ágreiningur um þetta viðhorf sem kemur fram hjá Siðfræðistofnun.

Með leyfi hæstv. forseta, segir síðan orðrétt:

„Á einhverju stigi er litið svo á þungunarrof sé ekki lengur siðferðilega réttlætanlegt. Hvar þessi lína skuli dregin er erfitt siðferðilegt mat. “

Ágreiningurinn sem ég hef við þetta frumvarp snýst í rauninni ekki um neitt annað en þessa línu.

Ég fagna hins vegar frumvarpinu sem slíku. Ég held að það sé nauðsynlegt. Ég held að það sé í takt við þá tíma sem við lifum þar sem tryggður er sjálfsákvörðunarréttur konu, en þó tökum við þá ákvörðun að sá sjálfsákvörðunarréttur sé bundinn ákveðnum mörkum í þessu frumvarpi og í meirihlutaáliti hv. velferðarnefndar er lagt til að sá ákvörðunarréttur verði þó ekki lengri en til 22. viku meðgöngu. Þannig að ágreiningurinn sem ég er að gera snýst um þessa línu, þetta siðferðilega mat. Hann snýst líka um spurninguna: Eru menn þá um leið að gefa fyrirheit um það að þegar læknisfræðinni, læknavísindunum, fleygir svo fram að fóstur verða lífvænleg við 18. viku, svo dæmi sé tekið, verði lögunum breytt? Vegna þess að það er það sem er útgangspunkturinn í þessu frumvarpi.

Að lokum, herra forseti, vil ég vitna aftur í umsögn Siðfræðistofnunar, í lokaorð hennar:

„Það er niðurstaða Siðfræðistofnunar að mikilvægt sé að flýta ekki um of afgreiðslu þessa frumvarps. Í fyrsta lagi telur Siðfræðistofnun varasamt að heimila þungunarrof allt til 22. viku því þá getur fóstur verið orðið lífvænlegt utan líkama móður, í öðru lagi þarf að huga vel að þeirri spennu sem er á milli þessa frumvarps og samnings Sameinuðu þjóðanna um rétt fatlaðs fólks. Hér eru í húfi grundvallarspurningar og álitamál um siðferðisstöðu fósturs, rétt fatlaðs fólks og sjálfsákvörðunarrétt kvenna sem þarfnast djúprar og upplýstrar umræðu í samfélaginu. Umsögn þessi er hugsuð sem innlegg í þá umræðu.“

Herra forseti. Eins og ég sagði í upphafi er þetta mál af þeim toga að það snertir tilfinningar. Það snertir tilfinningar allra, hygg ég, og þess vegna er svo mikilvægt að okkur takist í þessum þingsal að ræða þetta mál af stillingu og hófsemd og bera virðingu fyrir ólíkum sjónarmiðum okkar. Ég skil þau sjónarmið sem liggja að baki því að það skuli miða við viku 22. Ég er ósammála þeim, en ég skil þau. En við skulum a.m.k. sameinast um það, sem ég hygg að sé stærsta skrefið í þessu frumvarpi, að tryggja sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Um það eitt ættum við að geta sameinast.