149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:14]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að hv. þingmaður hafi alveg kórrétt fyrir sér. Ég held að akkúrat þetta ákvæði í gildandi lögum sé með þeim hætti að það eigi ekki að vera. Ég er hins vegar á því að það eigi að vera til úrræði þar sem lífi móður er ógnað. Þá held ég að vika 22 sé ekki línan. Nú horfi ég inn í hliðarsal á hv. þm. Ólaf Þór Gunnarsson, sem veit miklu meira um málið en ég, og ég hygg að það geti komið upp atvik í 25. viku, jafnvel 30. viku, jafnvel síðar þar sem menn þurfa að taka ákvörðun um að ljúka þungun vegna þess að það er verið að bjarga lífi. En við getum hins vegar ekki verið að heimila með sérstökum hætti að enda þungun á grundvelli þess að það sé einhver galli eða fóstrið er ekki fullkomið. Við getum ekki búið til samfélag þar sem við tökum ákvarðanir um að það séu bara fullkomnir einstaklingar sem skuli fæðast vegna þess að þá komum við í veg fyrir margbreytileika mannlífsins. Þannig samfélag viljum við ekki búa til. Ég er hjartanlega sammála þeirri gagnrýni sem hv. þingmaður kemur hér með.