149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:19]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nákvæmlega þetta vandamál sem ég stríði við, það er þessi lína og hvar hún er. Mér sýnist að ágreiningurinn á milli mín og hv. þingmanns sé í rauninni bara sá. Ég varpaði því fram áðan í ræðu minni að ef menn ætla að miða við viku 22 á grunni þess að fyrir þann tíma sé fóstrið ekki lífvænlegt, eins og er kallað, þá hljóta menn líka að vera tilbúnir til þess að segja það, þegar læknavísindunum fleygir fram, að þá muni línan færast niður og taka undir það sem landlæknir bendir á í sinni umsögn, að þessi mörk muni breytast í framtíðinni með enn betri umönnun fyrirbura. Þetta sé spurningin um það. Menn eru þá að velta því fyrir sér og gefa fyrirheit um það, þar á meðal hv. þingmaður ef ég skil hann rétt, en hv. þingmaður leiðréttir mig, að það eigi að miða við lífvænleikann og löggjafinn verði að vera tilbúinn til þess að færa mörkin neðar og neðar eftir því sem framfarir í læknavísindum gefa okkur tilefni til.