149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[21:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Halldóra Mogensen) (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég veit það er erfitt að svara þessu. Það var líka erfitt fyrir okkur í velferðarnefndinni. En þetta var skynsamlegasta niðurstaðan, alla vega að mati meiri hlutans, einmitt vegna þess að það er ómögulegt að sjá fyrir allar mismunandi aðstæður hjá konum í samfélaginu. Það er ómögulegt fyrir okkur sem löggjafa að sníða undanþágur við öllu sem mögulega gæti komið upp.

Þannig að þegar upp er staðið verðum við bara eiginlega að treysta konunni til þess að vita hver er besta ákvörðun fyrir hana, fyrir hennar líf.

Hv. þingmaður talaði hér áðan um að tækninni fleygði fram og hugsanlega muni lífvænleiki fósturs aukast fyrir 22. viku. En þá mun tækninni mjög líklega líka fleygja fram þegar kemur að skimun og 20. vikna sónarinn færist þá framar, færist á 18 vikna sónarinn, eða hvernig sem það nú er.

Þannig að við eigum ekkert að þurfa að hafa áhyggjur af því, svo lengi sem við vitum að það er engin kona — og við viðurkennum það — að fara í þungunarrof svona seint á meðgöngunni nema eitthvað alvarlegt sé að, nema það sé eini valmöguleikinn sem konan stendur frammi fyrir.

Og enginn annar getur tekið þessa ákvörðun fyrir konuna, hún þarf bara að taka hana sjálf. Öll þau rök sem koma á móti þessari breytingu hljóma í mín eyru eins og sé verið að halda því fram að konur séu eitthvað í auknum mæli að fara í þungunarrof seint á meðgöngu út af því að nú er það bara einhvern veginn í boði og opið og löglegt og ekkert mál að gera það, eins og það sé eitthvað léttvægt og sjálfsagt að kona fari seint í þungunarrof. Það er það sem ég á svo erfitt með.

Fagfólk mælir með því að þetta sé á 22 vikum. Það eru faglegar ástæður fyrir því.

Ætli spurningin mín sé ekki bara til hv. þingmanns hvort hann telji skynsamlegt að við séum að krukka í þessum vikufjölda út frá tilfinningum einstakra þingmanna frekar en (Forseti hringir.) út frá faglegu mati sérfræðinga?