149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[22:01]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur fyrir ræðu hennar. Það er eitt atriði sem mig langar til að spyrja hv. þingmann út í sem ég heyrði hana ekki koma inn á. Það snýr að réttindum fósturs eða hins ófædda barns.

Telur hv. þingmaður að þarna verði skurðpunktur við þau tímamörk er barn verður lífvænlegt, sem sagt við 22 vikur, þegar það á möguleika á að komast af utan móðurkviðs, sem sagt við 22 vikna markið? Eða telur hv. þingmaður að það gerist fyrr eða bara fyrst við fæðingu? Spurningin er sem sagt: Telur hv. þingmaður að sjónarmið um réttindi fóstursins sjálfs komi eitthvað inn í þetta mál?