149. löggjafarþing — 98. fundur,  2. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[22:03]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um þungunarrof sem við höfum rætt hér í allnokkurn tíma í dag. Mér hefur þótt umræðan afskaplega góð. Eðli máls samkvæmt er þetta viðkvæmt mál, eins og hér hefur líka komið fram, mjög skiptar skoðanir, tilfinningaþrungnar, og sitt sýnist hverjum í þessu eins og svo mörgu öðru sem við tökum hér fyrir og ekkert að því. Ég virði þær skoðanir sem hér hafa komið fram þó að ég sé mörgum þeirra afskaplega ósammála. Væntanlega eru líka margir ósammála minni nálgun.

Markmið þessa frumvarps er mjög mikilvægt, en kannski illu heilli hefur umræðan snúist ótrúlega mikið um vikur, 18, 20, 22, í staðinn fyrir að tala um það sem segir í 1. gr. um markmið laganna, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að tryggja að sjálfsforræði kvenna sem óska eftir þungunarrofi sé virt með því að veita þeim öruggan aðgang að heilbrigðisþjónustu í samræmi við ákvæði laganna.“

Í greinargerð segir svo:

„Með sjálfsforræði kvenna er átt við rétt kvenna til að taka sjálfar ákvarðanir um eigið líf og framtíð. Liður í sjálfsforræði kvenna er réttur til að taka ákvörðun um eigin barneignir og er slíkur réttur mikilvægur til að tryggja öryggi og frelsi kvenna.“

Þetta er inntak frumvarpsins. Vikur til eða frá er ekki hið eiginlega inntak frumvarpsins en það hefur tekið meira og minna allt pláss í umræðum dagsins og hitt fengið mun minni nálgun.

Það sem mér þótti áhugavert og hefur verið mikið rætt í dag eru jaðardæmi og annað slíkt sem eru kannski sannarlega það sem veldur því að ákvörðun er tekin svona seint. Ég segi það sem kona að það er klárlega þannig að konur velja það ekki sérstaklega að fara í þungunarrof fyrr en undir 22. viku. Að mínu mati er það ekki svo því að þetta er afar þungbær ákvörðun. Hún er ekki tekin nema af yfirvegun og væntanlega eftir að konan er búin að hugleiða það mjög mikið hvort hún vilji gera þetta eða ekki. Og mér finnst líka ástæða til að draga það fram að það er ekki út í loftið sem nefnt er í nefndaráliti meiri hlutans að um er að ræða konur í erfiðum aðstæðum, hvort sem um er að ræða félagslegar eða annars konar aðstæður. Það eru dæmin sem við erum fyrst og síðast að horfa á þegar kemur að þessu.

Ég fagna þessu frumvarpi og er afskaplega ánægð með að það sé loksins komið fram. Það hefur kannski ekki verið mikið rætt hér um framkvæmdina sem slíka. Það var lagt til að einungis sérfræðingar á sviði kvenlækninga myndu framkvæma slíkar aðgerðir. En eins og bent er á í nefndarálitinu eru auðvitað færir skurðlæknar víða, t.d. eins og á sjúkrahúsinu á Ísafirði og í Neskaupstað, sem gera keisaraaðgerðir og annað slíkt og eru þess vegna í færum til að framkvæma aðgerðir sem þessar. Nefndin leggur til breytingu í þá veru. Það tryggir auðvitað jafnræði sem við tölum mjög mikið um þegar kemur að þessum málum sem og svo mörgum öðrum.

Það er líka mikilvægt að halda því til haga eins og gert er grein fyrir í nefndaráliti meiri hlutans að konan fái ein ráðið þeim forsendum sem liggja að baki ákvörðuninni. Svo er talað um að það sé tryggt eftir fremsta megni að ákvörðunin sé upplýst, hún sé ekki tekin á grundvelli einhvers konar fordóma, upplýsingaskorts eða vanþekkingar og veitt almenn fræðsla, vilji konan þiggja hana. Við getum ekki skikkað konur til að þiggja fræðslu, en það er a.m.k. gert ráð fyrir því að hún sé til staðar.

Svo langar mig að fara aðeins yfir 5. gr. Við vitnum í ýmsar umsagnir sem við veljum vegna þess að þær styðja kannski þann málstað og rökstuðning sem hvert og eitt okkar leggur fram í þessa umræðu. Í 5. gr. er lagt til að heimilt verði að framkvæma þungunarrof hjá stúlku sem er ólögráða án þess að þurfa að bera það undir foreldra eða forráðamenn. Það er til að tryggja þann rétt að hún taki þessa ákvörðun sjálfstætt án þess að aðrir þurfi að koma að. Í núgildandi lögum frá 1975 er skilyrði um að sé kona yngri en 16 ára eða svipt sjálfræði skuli foreldrar eða lögráðamaður taka þátt í umsókn með henni nema eitthvað sérstakt mæli gegn því. Þetta samræmist ekki því sem við höfum rætt um þegar við hugum að réttindum barna til eigin forræðis, hvað þá ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Þess vegna er tekin sú ákvörðun að heimila þetta án aðkomu foreldra eða forráðamanns. Þetta er að undirlagi umboðsmanns barna. Við höfum jú talað um það hver sjái um börnin. Það er m.a. umboðsmaður barna sem leggur þetta til og þótti ekki nógu langt gengið í upphaflegu frumvarpi.

Það hefur líka komið fram hjá dómsmálaráðuneytinu, af því að þetta er auðvitað mjög persónuleg og afdrifarík ákvörðun, að það samræmist betur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins að stúlkur eigi þennan rétt til ákvörðunar um það hvort þær fara í þungunarrof eða ekki. Svo er að sjálfsögðu lagt til líka að það sé boðin fræðsla og getnaðarvarnir og annað slíkt til að þær þurfi ekki að nýta sér þessa heimild aftur.

Hér er því mikið undir og mörgu breytt til batnaðar, þessi gömlu lög sem hér eru undir eru uppfærð og er það löngu tímabært eins og komið hefur fram og kom fram í 1. umr. Ég vil líta þannig á að alla jafna lítum við þannig á okkur sjálf að við berum á ábyrgð á okkar gjörðum og því sem við tökum okkur fyrir hendur og trúi því að það eigi hvorki að vera í höndum heilbrigðisstarfsmanna né einhverra félagsráðgjafa né okkar sem erum á Alþingi og setjum lög, að taka þá ákvörðun fyrir konu hvort hún skuli eiga barn.

Um leið má segja eins og ég nefndi áðan að ef kona telur sig þurfa fræðslu eða aðstoð eða eitthvað slíkt þá er hún auðvitað í boði. Við erum með afar góða ljósmóðurþjónustu á Íslandi og hjá öðrum heilbrigðisstarfsmönnum. Við erum með góða og öfluga heilsugæslu o.s.frv. þannig að það er víða hægt að sækja þjónustu og konur gera það almennt, nema kannski helst þær sem eru t.d. af erlendu bergi brotnar og þekkja ekki þann stuðning sem samfélagið býður upp á og þann rétt sem þær eiga til þjónustu, t.d. að þær þurfa ekki að borga sérstaklega fyrir það að fara í þungunarrof. Það er mjög mikilvægt. Þetta er kannski partur af því sem hér hefur verið nefnt sem félagslegur þáttur, fólk sem á við erfiðleika að stríða, hvort sem það er ofbeldi eða annað slíkt. Þetta er hópur sem við eigum einmitt að hafa betur í sigtinu og þurfum í rauninni að kynna þessa heilbrigðisþjónustu miklu betur fyrir þeim hópi. En svo erum við með dæmi, eins og hér hefur komið fram í dag, um konur sem hafa búið í ofbeldissambandi og geta ekki einhverra hluta vegna, hvað á ég að segja, tekið þessa ákvörðun nægjanlega snemma eins og þær kannski sjálfar myndu vilja gera. Ég trúi því einlæglega að það sé neyðarúrræði þegar fram í sækir að fara mjög seint. Eins og hér hefur komið fram þá sýna tölur að þar sem þetta er heimilt og löggjöfin er víðtækari þá eru í kringum 80% þungunarrofa framkvæmd fyrir lok níundu viku, 95% eru framkvæmd fyrir lok 12. viku og það eru því 5% og innan við það sem fara fram eftir lok 16. viku. Eftir 20. viku eru það innan við tíu tilvik á ári. Svo þessar vikur séu undir þá eru tölur sem segja að fjöldi tilvika á bilinu 17.–20. viku séu fjögur og svo örfá eftir það.

Virðulegi forseti. Það þarf svo sem ekkert að lengja þessa umræðu. Það bætist ekki mikið við hana. Ég held að sjónarmið hafi komið mjög vel fram í dag. Fólk er á móti þessu máli af ýmsum ástæðum, ýmist vegna trúarlegra ástæðna eða annarra ástæðna, alveg eins og þeir sem eru fylgjandi þessu eru einlæglega stuðningsmenn þess að konur ráði yfir sínum líkama. Það styður þá skoðun að þetta er ekki eitthvað sem er misnotað eða konur gera af því bara. Það held ég að allar konur viti ef þær vilja horfa á þetta einlæglega.

Mig langar í lokin að lesa upp, með leyfi forseta, pistil sem kona, sem sat hér í dag á pöllunum, skrifaði á Facebook. Ég fékk heimild hennar til að lesa hann óbreyttan:

„Rauðsokkahreyfingin gerði sjálfsákvörðunarrétt kvenna til að ráða yfir sínum eigin líkama að einu af sínum aðalbaráttumálum fljótlega eftir stofnun 1970. Þá voru fóstureyðingar bannaðar nema móðirin væri í lífshættu. Ég“ — sú sem talar er Guðrún Ágústsdóttir — „var í aðgerðarhópnum og það þurfti hugrekki til að standa utan við verslanir og dreifa ágætum einblöðungi með okkar helstu rökum. Málið var viðkvæmt.

1970 skipaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins nefnd þriggja karla til að endurskoða lög um fóstureyðingar. Rauðsokkahreyfingin og Kvenréttindafélagið gerðu athugasemdir við skipan nefndarinnar. Vilborg Harðardóttir og Guðrún Erlendsdóttir bættust við nefndina þegar vinstri stjórnin kom til valda og Magnús Kjartansson var orðinn heilbrigðisráðherra. Nefndin samdi frumvarp að nýrri löggjöf sem lagt var fram á Alþingi 1973. Í leiðara í blaðinu okkar Forvitinnar rauðrar í janúar 1974 sögðum við:

„Hér er á ferðinni eitt af stærstu málum jafnréttisbaráttunnar, því styðjum við, sem stöndum að þessu blaði, af alhug það frumvarp um fóstureyðingar, sem lagt hefur verið fram á Alþingi og treystum þjóðkjörnum fulltrúum okkar til að koma því í örugga höfn.“

Vinstri stjórnin fór frá sumarið 1974 og þá skipaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins nýja nefnd þriggja karla til að undirbúa framlagningu frumvarpsins á nýjan leik. Frumvarpið breytt varð að lögum 1975 og félagslegar og læknisfræðilegar aðstæður eru þar taldar nauðsynlegar ástæður til fóstureyðingar þannig að réttindi kvenna voru þrengd verulega frá því sem gert hafði verið ráð fyrir í frumvarpinu sem Vilborg Harðardóttir hafði forystu um að samið var. Fyrir þurfti að liggja rökstudd greinargerð frá lækni og félagsráðgjafa eða tveimur læknum. Sem sagt ekki yfirráð kvenna yfir eigin líkama. En þetta var stórt skref.

Nú tæpum 50 árum síðar eygjum við von um að konur fái sjálfar að ráða yfir sínum eigin líkama. Mig langaði að upplifa þessa merku stund þegar rætt var um frumvarp heilbrigðisráðherra um að konur ráði yfir sínum eigin líkama og mætti þess vegna á pallana. Við breytingarnar síðast voru konur á þingi aðeins níu. Nú tæpum 50 árum síðar eru þær mun fleiri. Stórkostlegt að vera á pöllunum í dag — ég var að vísu alein! — og hlusta á hverja konuna eftir aðra og líka karla tala fyrir þessu eldgamla baráttumáli okkar Rauðsokkanna. Heimurinn breytist til hins betra — stundum.“

Virðulegi forseti. Svo mörg voru þau orð sem Guðrún Ágústsdóttir lét falla í kvöld eftir að hafa setið hér og hlustað á umræðuna hluta úr degi. Ég get ekki annað en sagt við þá sem hafa talað um að við þurfum að gefa þessu örlítið meiri tíma, við þurfum að ígrunda þetta eitthvað betur, að 50 ár eru drjúgur tími. Ég held að við getum sammælst um það að 50 ár eru drjúgur tími. Þótt við sem hér stöndum akkúrat núna séum ekki endilega búin að fjalla um þetta mál í 50 ár þá þarf þetta mál ekki lengri tíma í ferlinu.

Ég fagna því og ég treysti að við samþykkjum þetta mál þannig að konur geti staðið hér keikar og ákveðið um eigin líkama og það hvort þær vilji eiga börn.