149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:46]
Horfa

Halldóra Mogensen (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Árið 1975 þegar núverandi löggjöf var samþykkt voru þrjár konur á þingi. Í dag erum við 24. Við ættum að vera fleiri, en við erum 24. Vonandi verður sú breyting á þessum lögum að við færum sjálfsákvörðunarréttinn til kvenna þegar kemur að ákvörðun um þungunarrof.

Í dag fær kona að fara í þungunarrof upp að 22. viku — ef hún uppfyllir skilyrði laga, en það eru læknar og heilbrigðisstarfsfólk sem ráða því.

Frumvarpið sem við greiðum nú atkvæði um tryggir sjálfsákvörðunarrétt kvenna upp að 22. viku. Við erum ekki að víkka út heimildir, við erum bara tryggja að konan ræður þessu sjálf. Það er sjálfsagt. Það rökrétt. Það er réttlátt.

Mig langar að þakka hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að leggja fram þetta mikilvæga frumvarp. Það er alveg magnað að við skulum loksins vera að færa þetta í rétt horf.