149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:48]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er í rauninni dapurt þegar maður hlustar hér á formann hv. velferðarnefndar segja það hreint út að við séum með nákvæmlega þessa heimild, til loka 22. viku. Með frumvarpinu er lagt til að fóstureyðingar verði heimilaðar til loka 22. viku þungunar, burt séð frá því hvort um heilbrigt barn er að ræða á þeim tímapunkti eða ekki. Það felur í sér eingöngu geðþóttaákvörðun móður og það er enginn að tala um það hér að þessi ákvörðun sé ekki skelfileg og erfið.

Það er heldur enginn að tala hér um þau jaðartilvik, þær sorglegu aðstæður sem kunna að koma upp, þegar og ef sú staða kemur upp að móðir er langt gengin á meðgöngu, að hún fái ekki úrlausn sinna mála. En í rauninni er þetta siðferðislega rangt. Mér líður illa yfir því að þurfa að vera að taka þátt í þessu. Ég segi svo sannarlega nei.