149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:53]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það eru líklegast fá mál sem eru viðkvæmari en spurningin um þungunarrof, eða fóstureyðingu, eins og ég hef vanist að tala um. Ég er á milli steins og sleggju. Ég er annars vegar eindreginn fylgismaður eiginlega alls frumvarpsins í heild, sérstaklega þegar kemur að því að tryggja sjálfsforræði kvenna. Þar er ég með og er harður stuðningsmaður. En ég staldra við þennan þröskuld sem er í 4. gr. frumvarpsins, sem eru 22 vikur. Það er þess vegna sem ég get ekki hér á eftir greitt atkvæði með þeirri grein, en ég styð hins vegar frumvarpið að öðru leyti. Ég mun ekki greiða atkvæði gegn 4. gr. þegar hún kemur. Það geri ég í trausti þess (Forseti hringir.) velferðarnefnd taki málið aftur til (Forseti hringir.) meðferðar og athugi hvort við getum ekki náð breiðari samstöðu (Forseti hringir.) í jafn viðkvæmu máli og hér um ræðir.