149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég styð að sjálfsögðu sjálfsákvörðunarrétt kvenna og vald þeirra yfir eigin líkama o.s.frv., en ég er hins vegar svo staddur að ég á mjög erfitt með þá tímalengd sem er í þessu frumvarpi, 22 vikur. Ég á bara mjög erfitt með hana. Ég kemst eiginlega ekki hjá því að sjá fyrir mér fóstur sem er nánast fullskapað og lífvænlegt og steypir sér kollhnís í móðurkviði. Ég kemst ekki fram hjá þeirri mynd, því miður. Þannig að það út af fyrir sig gerir mér mjög erfitt fyrir í þessu máli. Afstaða mín til frumvarpsins í heild mun að sjálfsögðu koma fram á sínum tíma þegar við greiðum atkvæði. En ef þessar 22 vikur væru ekki þarna myndi ég styðja þetta mál heils hugar.