149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[11:59]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég frábið mér predikanir frá hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni um sómasamlega hegðun í þingsal. Ég er ekki að reyna að vera fyndinn. Aftur á móti ber ég fulla virðingu fyrir því að fólk nálgist málið út frá sínum eigin siðferðilegu forsendum, sem geta vissulega grundvallast á kristinni trú. Ég geri ekki athugasemdir við það. En þetta frumvarp fyrirbyggir það ekki. Með því að flytja sjálfsákvörðunarrétt til þungaðra kvenna sjálfra er það alfarið þeirra eigið siðferði, hvort sem það byggir á trúarskoðunum, húmanisma eða einhverju öðru, sem ræður ferðinni, að sjálfsögðu í samræmi við landslög. Það er gott og blessað að fólk aðhyllist kristna trú, en það er ekki gott og blessað að pranga upp á aðra trúarskoðunum sínum með því að draga úr sjálfsákvörðunarrétti annarra með landslögum. Þetta snýst um hver tekur ákvörðunina, ekki það hvort hvert og eitt okkar hér inni trúi á þennan guðinn eða hinn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)