149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

þungunarrof.

393. mál
[12:06]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég virði sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Það er enginn sem segir mér að fara í fóstureyðingu nema ég ákveði það sjálf. Það mundi enginn annar taka þá ákvörðun fyrir mig. En þessi tímalengd, 22 vikur — skiptir engu máli hvort barnið er heilbrigt eða ekki — er gjörsamlega svo langt yfir þeim velsæmismörkum sem ég gæti horfst í augu við siðferðislega, að ég get í engu viðurkennt það. Það er þess vegna sem við leggjum fram þessa breytingartillögu. Lögin hafa virkað ágætlega hingað til. Konur hafa fengið að fara í sína fóstureyðingu, 1.044 á ári, án nokkurrar höfnunar. Það er engin ástæða að okkar mati til að rýmka löggjöfina svo gríðarlega sem raun ber vitni.