149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

tekjuskattur.

635. mál
[13:10]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003, fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar. Nefndin fékk á sinn fund fulltrúa frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Samtökum atvinnulífsins og fékk auk þess umsagnir frá endurskoðunarfyrirtækjunum KPMG og PwC.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 91. gr. a laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, sem fjalla um svokallaðar ríki-fyrir-ríki skýrslur um skattskil. Felast breytingarnar í fyrsta lagi í því að viðmiðunarfjárhæð vegna skilaskyldu innlendra móðurfélaga á ríki-fyrir-ríki skýrslum verði miðuð við evrur en ekki íslenskar krónur, í öðru lagi í breytingum á 2. mgr. greinarinnar um það hvenær skylda til að skila ríki-fyrir-ríki skýrslu hvílir á innlendu félögunum þrátt fyrir að þau teljist ekki vera fjölþjóðlegar heildarsamstæður og í þriðja lagi í viðbót nýs ákvæðis um svokölluð staðgöngufélög móðurfélaga, þ.e. surrogate parent entity. Með breytingunum er m.a. ætlunin að bregðast við ábendingum OECD um íslensku reglurnar um ríki-fyrir-ríki skýrslur.

Nefndinni var bent á að tímafrestir sem getið er um í g- og h-lið 1. gr. frumvarpsins og varða tilkynningar til ríkisskattstjóra væru óraunhæfar þar sem upplýsingar sem tilkynna skal fyrir lok reikningsárs lægju ekki ljósar fyrir fyrr en við sama tímamark. Nauðsynlegt væri að kveða á um rýmra tímamark. Nefndin fellst á ábendinguna og leggur til að miðað verði við að tilkynningar samkvæmt ákvæðinu berist ríkisskattstjóra innan mánaðar frá lokum reikningsárs.

Eins og áður segir leggur nefndin til breytingar sem fylgja með nefndarálitinu, sem ég fer ekki frekar yfir en vísa til álitsins.

Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins en undir álitið rita hv. þingmenn Óli Björn Kárason, Ólafur Þór Gunnarsson, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Einar Kárason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Smári McCarthy.