149. löggjafarþing — 99. fundur,  3. maí 2019.

vátryggingastarfsemi og vátryggingasamstæður.

632. mál
[13:28]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um vátryggingastarfsemi og lögum um vátryggingasamstæður, reglugerðir og reglur. Nefndarálitið er á þingskjali 1298.

Nefndin fékk á sinn fund sérfræðinga frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og frá Fjármálaeftirlitinu. Umsögn barst frá Fjármálaeftirlitinu.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um vátryggingastarfsemi, nr. 100/2016, annars vegar og lögum um vátryggingasamstæður, nr. 60/2017, hins vegar. Er með breytingunum m.a. brugðist við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA við innleiðingu á framkvæmdastöðlum ESB sem gefnir eru út ársfjórðungslega og varða tæknilegar upplýsingar fyrir útreikning á vátryggingaskuld vegna ársfjórðungslegra gagnaskila.

Í umsögn sinni til nefndarinnar lagði Fjármálaeftirlitið til breytingu á 1. gr. frumvarpsins um heimild stofnunarinnar til að setja reglur um upplýsingar um áhættulausan vaxtaferil fyrir viðeigandi gjaldmiðla til að reikna besta mat vátryggingaskuldar vegna ársfjórðungslegra gagnaskila. Leggur Fjármálaeftirlitið til að í ákvæðinu verði tekið fram að við setningu reglnanna sé stofnuninni heimilt að vísa til birtingar á framkvæmdarreglugerðum sem innihalda upplýsingarnar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins á ensku. Nefndin fellst á tillögu Fjármálaeftirlitsins og leggur til viðeigandi breytingu á 1. gr. frumvarpsins. Breytingartillaga þess efnis fylgir með nefndarálitinu sem hér liggur fyrir.

Silja Dögg Gunnarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir nefndarálit þetta rita Óli Björn Kárason, Þorsteinn Víglundsson, Brynjar Níelsson, Bryndís Haraldsdóttir, Einar Kárason, Ólafur Þór Gunnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Smári McCarthy.