149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

opinber innkaup.

442. mál
[16:01]
Horfa

Frsm. fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera örstutt grein fyrir tæknilegum breytingum sem þurfa að eiga sér stað svo þetta hangi allt saman rétt á spýtunni. Það stendur í breytingartillögu um lög um opinber innkaup að í stað „1. mgr.“ í 2. gr. komi: 2. mgr. Til að skýra það nánar var þetta vitlaust í frumvarpinu í upphafi. Það er ekki um neinn e-staflið að ræða í 1. mgr. heldur í 2. mgr. Það verður lagfært hér með.

Í annan stað stendur að á eftir 4. gr. komi ný grein, svohljóðandi: Á eftir orðinu „ógilt“ í a-lið 1. mgr. 66. gr. laganna kemur: eða óaðgengilegt. Þarna erum við að breyta fyrirsögn sem snýst ekki bara um ógild tilboð heldur líka óaðgengileg tilboð.

Að lokum er það 13. gr. sem á að orðast svo: Lög þessi öðlast þegar gildi. Þó öðlast 10. og 11. gr. gildi 1. september 2019 og 8. gr. 1. janúar 2020. Þar erum við fyrst og fremst að breyta keðjuábyrgðinni, þ.e. gildistíma hennar. Við fjölluðum mikið um það í nefndinni og í umræðu um málið, þ.e. að það taki ekki gildi fyrr en 1. janúar 2020, og svo er þarna líka um fyrirkomulag innkaupa ríkisins í 10. og 11. gr. breyting á gildistöku.