149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

512. mál
[16:04]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Hér er um að ræða mál sem er mjög lýsandi, því miður, fyrir það hvernig menn nálgast umhverfismálin allt of oft með því sem er ekki hægt að kalla annað en sýndarmennsku. Mikið hefur verið rætt um plast og þau vandamál sem því fylgja undanfarin ár, sérstaklega með tilliti til plastmengunar í höfum. Menn hafa leitað leiða til að bregðast við þessu en hér er ekki verið að líta á heildaráhrif vandamálsins eða hvernig lausnir séu raunverulega best til þess fallnar að draga úr vandanum.

Ef við lítum eingöngu til plasts í hafi hefur verið sýnt fram á að líklega um 90%, jafnvel meira en það, af plasti sem er í hafinu komi úr aðeins tíu fljótum hvar af átta eru í Asíu og tvö í Afríku. Það er ekki mikið um að það plast sem við notum á Íslandi í umbúðir eða plastpokar úr verslunum fari út í haf. Ef sú væri raunin þyrfti að passa betur upp á að pokar væru ekki á foki og enduðu í hafinu.

En fleira kemur til. Í Skotlandi var til skoðunar árið 2006 að samþykkja frumvarp í líkingu við það sem við ræðum hér. Skoska þingið ákvað hins vegar að taka tvö ár í að reyna að meta heildaráhrifin af löggjöfinni og hvort aðrar leiðir kynnu að vera betri. Niðurstaðan varð sú að það væri umhverfislega óæskilegt að banna plastpokana, enda hefðu til að mynda bréfpokar sem kæmu í staðinn þeim mun meiri áhrif á ýmsa þætti umhverfis.

Sex árum seinna, árið 2012, var sams konar mál tekið til skoðunar hjá breska umhverfisráðuneytinu og farið í mjög yfirgripsmikla og ítarlega rannsókn á áhrifunum af lagasetningu sem þessari. Niðurstaðan þar var ekki síður áhugaverð og raunar enn skýrari hvað þetta varðar og leiddi til að mynda í ljós að bómullarburðarpokar, sem þá voru að ryðja sér til rúms og var mjög mælt með að menn notuðu í verslunarferðum sínum, hefðu 176-falt neikvæðari áhrif en plastpokarnir. Það þyrfti með öðrum orðum að nota slíka burðarpoka 176 sinnum í stað þess að nota 176 plastpoka. Þá er einungis gert ráð fyrir því að plastpokinn sé notaður einu sinni.

En auðvitað hafa þeir yfirleitt framhaldslíf, þótt ekki sé annað en að verða sorppokar, og halda þá utan um hitt sorpið og koma vonandi í veg fyrir að það fjúki út um allt og endi úti í sjó.

Það var sama til hvaða þátta var litið, hvort sem það voru áhrif á sjó, lífríki í sjó eða loftslagsmálin, áhrifin af öðrum lausnum, sérstaklega bómullarpokunum en einnig bréfpokum, maíspokum og öðrum lausnum, höfðu á heildina litið meiri neikvæð umhverfisleg áhrif.

Því hljótum við að vilja líta til rannsókna í öðrum löndum þegar þær gefa til kynna að til séu betri leiðir en þær sem við erum að fara núna, þó að þær leiðir kunni ekki að falla jafn auðveldlega að þeim tíðaranda dagsins að geta sagt: Ja, við ætlum að banna plastpoka og þar með að leysa vanda heimsins.

Það er nefnilega ekki svo einfalt og jafnvel getur það á endanum haft skaðlegar afleiðingar í för með sér, samanber það þegar allir voru hvattir til að keyra um á dísilbílum áður en að menn skoðuðu heildarmyndina og rannsóknir leiddu í ljós að þær ályktanir höfðu allar verið byggðar á röngum forsendum.

Ég vil að lokum hvetja þingið til að nálgast umhverfismálin á heildstæðari hátt en menn gera, ekki bara út frá einhverjum frösum eða einföldum lausnum, sýnilegum lausnum, heldur leitast við að finna lausnir sem virka. Ekkert bendir til þess að ef menn vilja raunverulega horfa til vísinda, skoða heildarmyndina, muni lausn eins og sú sem hér er boðuð hafa jákvæð áhrif. Hún getur jafnvel haft neikvæð umhverfisleg áhrif.