Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

hollustuhættir og mengunarvarnir.

512. mál
[16:12]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir innlegg hans. Ég vildi bara halda einu til haga hér, af því að framsögumaður nefndarálits, sem ég tel rétt að árétta að ég var ekki á þegar málið var afgreitt úr umhverfis- og samgöngunefnd, kom inn á að málið væri unnið á grundvelli innleiðingar á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2015/720 og að það væri í rauninni grundvöllur þess máls sem hér væri lagt fram.

Ég vil fá að benda sérstaklega á eitt í ræðu hæstv. umhverfisráðherra, Guðmundar Inga Guðbrandssonar, þegar málið var hér við 1. umr., að þá var eftirfarandi tiltekið sérstaklega, með leyfi forseta:

„Hér er gengið lengra en tilskipunin kveður á um í ljósi þess að skyldan gildir um alla burðarpoka.“

Það er mikilvægt að við séum meðvituð um að tilskipun Evrópusambandsins gengur út á þunna plastpoka, þunnildin sem við þekkjum, sem eru raunverulega einnota, og hnútapoka sem eru í ávaxtahillum og þess háttar. En tilskipun Evrópusambandsins gengur ekki út á hina eiginlegu alvöru burðarpoka sem við þekkjum öll og flestir nota í ruslið heima hjá sér og þar fram eftir götunum. Bara svo því sé haldið til haga þá er hér verið að ganga lengra en tilskipunin gerir ráð fyrir og ég er efins um að það sé skynsamlegt á þessum tímapunkti.