149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[16:21]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir framsöguna í málinu. Eins og kom fram í máli hennar er ég með á nefndarálitinu, en ástæðan fyrir veru minni hér er sú að mér fannst ekki koma alveg nógu skýrt fram í máli hv. þingmanns að ástæðan fyrir því að um er að ræða frávísunartillögu með þessum hætti, þ.e. að fela félags- og barnamálaráðherra frekari vinnu, er sú að í sjálfu sér er ekki samstaða í hv. nefnd um þá aðferð sem rædd er í frumvarpinu. Þótt við styðjum vissulega nefndarálitið og styðjum þessa aðferð er það ekki.

Síðan eru hin atriðin sem hv. þingmaður kom inn á, og er hárrétt, að afar mikilvægt er að fram fari víðtækt samráð við aðila vinnumarkaðarins og sennilegast er ráðuneyti félagsmála best til þess fallið að standa að slíku samráði og koma með heildstætt frumvarp. En ég minni á að nú eru kjarasamningar akkúrat í gangi. Þess vegna er það kannski ekki tímapunkturinn að þingið stígi fram með ákveðnum hætti og komi með nýja löggjöf, heldur miklu fremur að þingið lýsi vilja sínum með þeim hætti sem hér kemur fram en þó þannig að áður fari fram samráð við áðurgreinda aðila. Á þeim forsendum er ég og væntanlega aðrir þingmenn í nefndinni, með mismunandi afbrigðum, á álitinu og erum samþykk þessari afgreiðslu.