149. löggjafarþing — 100. fundur,  6. maí 2019.

40 stunda vinnuvika.

181. mál
[16:27]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég get rakið frekar stefnu Pírata í þessu, hvenær stefnan sem þingmálið er byggt á var samþykkt. Hún er enn eldri en látum það liggja á milli hluta.

Í nefndaráliti er talað um umsögn Félags kvenna í atvinnulífinu þar sem ekki er alveg tekið undir forsendur greinargerðarinnar vegna nýrra talna frá Hagstofu sem þarf að skoða aðeins betur. Þrátt fyrir það eru einstök dæmi, t.d. í tilraunaverkefni Reykjavíkurborgar, í tilraunaverkefni Hugsmiðjunnar, sem er ekki einu sinni tilraunaverkefni lengur, sem sýna fram á aukna framleiðni með styttingu vinnuvikunnar, þannig að það eru í raun engar forsendur fyrir því að segja að greinargerðin sem slík sé brostin hvað það varðar. Þó að almennu tölurnar séu eitthvað breytilegar hjá Hagstofunni vitum við að þessar vinnumarkaðstölur eru tiltölulega ónákvæmar. Rannsóknirnar styðja hins vegar niðurstöður greinargerðarinnar mjög vel.

Að öðru leyti erum við á Alþingi með umboð frá kjósendum. Vissulega vinnum við með umsagnir frá hagsmunaaðilum, Samtökum atvinnulífsins, vinnuveitendum, verkalýðsfélögunum o.s.frv. Ég túlka frumvarpið og legg það fram á þann hátt að um sé að ræða réttarbót um skilgreiningu á dagvinnutíma. Hvað gert er innan hans er síðan samningsatriði milli atvinnurekenda og vinnufólks en það er algjörlega okkar mál á Alþingi að taka afstöðu gagnvart þessari réttindabót. Það er okkar hlutverk þegar allt kemur til alls, óháð stærra samtalinu. Þótt það sé að sjálfsögðu gott að fá það fram getum við alveg tekið þá ákvörðun, hvernig sem hún lítur út án þess, upp á réttindi fólks því að þaðan fáum við umboð.

Ég er alveg sammála því að afgreiðsla málsins er bara ágætlega fagleg. Fyrir mér persónulega, með mitt umboð og mína sannfæringu, duga þau rök sem komu fram í greinargerðinni til að samþykkja frumvarpið. En ég hef ekkert á móti því að stíga þetta styttra skref í áttina að fleiri gögnum, ég kvarta aldrei undan því. Þá tekur bara við eftirfylgni við ráðherra, að sjá til þess að hann sinni þessu hlutverki sínu sem allir þingflokkar beina að honum, og ég hlakka til þessa verks.